Enska félagið Fulham er að leita að nýjum hægri bakverði fyrir næstu leiktíð.
Marco Silva, stjóri Fulham, ætlar að styrkja hópinn í sumar til þess að halda liðinu áfram í samkeppni um Evrópusæti og er það í forgangi að fá hægri bakvörð.
Sky Sports segir að félagið hafi mikinn áhuga á enska leikmanninum Ben Johnson, sem er á mála hjá Ipswich Town.
Hann er þó ekki sá eini sem er á listanum en félagið hefur einnig rætt við umboðsmenn Kyle Walker-Peters hjá Southampton, en samningur hans rennur út í sumar.
Það gæti reynst erfiðara að fá Johnson sem á þrjú ár eftir af samningi sínum hjá Ipswich og er þá ekki með sérstaka klásúlu vegn falls Ipswich úr úrvalsdeildinni.
Johnson, sem er 25 ára gamall, er sagður mikilvægur hluti af plönum Ipswich fyrir næstu leiktíð og gæti Fulham því þurft að galopna veskið til að landa honum.
Athugasemdir