
„Það er alveg hellings törn að taka þátt í lokamóti í fótbolta," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, í viðtali við Fótbolta.net út í Serbíu núna á dögunum er hann var spurður út í álagið sem fylgir því að fara á lokamót Evrópumótsins sem haldið er núna í Sviss.
Stelpurnar okkar mættu til Sviss á laugardaginn síðasta en það voru fimm starfsmenn KSÍ mættir þangað fyrir til að gera allt klárt fyrir þær á hótelinu.
Stelpurnar okkar mættu til Sviss á laugardaginn síðasta en það voru fimm starfsmenn KSÍ mættir þangað fyrir til að gera allt klárt fyrir þær á hótelinu.
„Þetta er heljarinnar vinna og síðan síðasta haust hefur starfsfólk innan sambandsins verið að vinna að beinum hætti að undirbúningi þessa lokamóts. Það eru alls konar lítil atriði. Það þarf alltaf að vera að svara einhverjum fyrirspurnum eins og til dæmis um það hvernig markmannshanskinn er á litinn og svona. Það eru svona litlir hlutir sem eru ótrúlegir, en það er alveg álag á starfsfólk. Þegar nær dregur uppgötva allir hvað þetta er helvíti stórt," sagði Steini jafnframt.
Í starfsteyminu í kringum liðið eru 24 einstaklingar. Það er gott að hafa svona hóp sem hugsar afskaplega vel um stelpurnar á meðan mótinu stendur.
„Hluti af þessu eru kröfur UEFA sem fylgja með því að taka þátt í stórmóti. Það er líka annað starfsfólk frá UEFA sem er inn á hótelinu að sinna öryggismálum og svo eru bílstjórar og svona. Það bætast fleiri við þessa 24 sem eru frá KSÍ. Þetta er stór pakki og það hafa allir nóg að gera. Það er alls ekki þannig að þetta er einhver lúxus. Við erum örugglega með einn fámennasta hópinn á mótinu. Ég hugsa að stærri þjóðirnir séu með 40-50 manns sem eru að vinna við liðið þegar á stórmót er komið."
Kokkur, sálfræðingur og samfélagsmiðlagúrú
Flestir af þeim sem eru í teyminu hafa starfið fyrir landsliðið í langan tíma. Eins og til dæmis Grímur Gunnarsson, sem er sálfræðingur liðsins. Í nútímafótbolta er það orðið æ mikilvægara að huga að hugræna þættinum. Grímur hefur víðtæka reynslu af því að vinna með íþróttafólki og á svona móti er gífurlega mikilvægt að vinna að andlega þættinum.
Svo er það kokkurinn, Ylfa Helgadóttir, sem hefur eldað ofan í kvennalandsliðið í nokkur ár. Ylfa, sem nýverið menntaði sig sem lögfræðingur, hefur ferðast með kvennalandsliðinu í flesta keppnisleiki síðustu árin.
„KSÍ er búið að gera mjög vel. Stórmót eru alltaf svolítið einstök. Okkur líður mjög vel hérna," sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, landsliðskona, við Fótbolta.net í dag og hrósaði Ylfu í hástert.
„Ylfa er geggjuð. Maður þarf að fara að fá hana heim til sín," sagði Karólína og hló. „Hún yndisleg kona og maturinn í heimsklassa."
Og svo er það Arnar Laufdal, samfélagsmiðlagúru, sem er að taka efni samfélagsmiðlum upp um nokkur þrep hjá KSÍ. Myndböndin hans í aðdraganda mótsins hafa vakið verðskuldaða athygli en hann var tekinn inn í teymi KSÍ fyrir þetta Evrópumót. Arnar hefur verið að sérhæfa sig í efni á samfélagsmiðlum og hefur verið að vinna frábært starf fyrir Breiðablik síðustu ár. Áður var Karólína Lea, leikmaður liðsins, að sjá um efnið á samfélagsmiðlunum.
Þetta eru bara nokkur dæmi en hér fyrir neðan má sjá listann yfir allt starfsfólk KSÍ á EM. Þarna eru til dæmis nokkrar fyrrum landsliðskonur.
Þorsteinn H. Halldórsson, aðalþjálfari
Ásmundur Haraldsson, aðstoðarþjálfari
Ólafur Pétursson, markmannsþjálfari
Davíð Snorri Jónasson, njósnari
Þórður Þórðarson, njósnari
Aðalheiður Rósa Jóhannesdóttir, læknir
Ágústa Sigurjónsdóttir, sjúkraþjálfari
Ásta Árnadóttir, sjúkraþjálfari
Tinna Mark Antonsdóttir, sjúkraþjálfari
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, styrktarþjálfari
Lára Hafliðadóttir, aðstoðarstyrktarþjálfari og greinandi
Thomas Goodall, tæknilegur greinandi
Grímur Gunnarsson, sálfræðingur
Hafsteinn Steinsson, liðsstjóri
Kristbjörg Helga Ingadóttir, búningastjóri
Laufey Ólafsdóttir, búningastjóri
Ómar Smárason, yfirfjölmiðlafulltrúi
Jóhann Ólafur Sigurðsson, fjölmiðlafulltrúi
Arnar Laufdal Arnarsson, samfélagsmiðlar
Davíð Ernir Kolbeins, miðamál
Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ
Óskar Örn Guðbrandsson, verkefnastjóri
Vilhjálmur Gíslason, öryggisstjóri
Ylfa Helgadóttir, kokkur
Leikir Íslands á EM 2025:
2. júlí, Ísland - Finnland
6. júlí, Ísland - Sviss
10. júlí, Ísland - Noregur
Athugasemdir