KR er ekki í góðum málum í Bestu deild karla, en liðið er aðeins þremur stigum frá fallsvæðinu eftir jafntefli gegn KA í gærkvöldi.
Félagaskiptaglugginn er núna opinn og það hefur verið fjallað um það að Ástbjörn Þórðarson og Gyrðir Hrafn Guðbrandsson séu að koma til félagsins.
Félagaskiptaglugginn er núna opinn og það hefur verið fjallað um það að Ástbjörn Þórðarson og Gyrðir Hrafn Guðbrandsson séu að koma til félagsins.
Báðir eru þeir á mála hjá FH en þeir verða samningslausir eftir tímabilið. Talað hefur verið um að KR sé að reyna að fá þá núna í glugganum en það sé flókið.
„Það er allt bara - eins og kom fram í einhverjum spjöllum í gær - í skoðun. Menn eru bara að skoða stöðuna," sagði Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, við Fótbolta.net í dag.
„Þeir eru samningsbundnir FH. Menn hafa bara verið að kanna stöðuna. Það er annars ekkert sem ég get sagt um á þessum tímapunkti."
Pálmi Rafn Pálmason, núverandi þjálfari KR, var spurður út í leikmennina í viðtali í gær. „Ég er hæfilega bjartsýnn. Ég hef sagt það áður að ég myndi gjarnan vilja fá þessa tvo leikmenn til okkar og hvað þá núna í glugganum. En þeir eru bara leikmenn FH eins og er. Flottir leikmenn og frábærir karakterar," sagði Pálmi.
Nýir leikmenn áður en glugginn lokar?
KR var að selja Aron Kristófer Lárusson í Þór en félagið hefur ekki enn bætt við sig leikmanni í glugganum þrátt fyrir að vera í vondri stöðu í deildinni. Það eru enn um tvær vikur eftir af glugganum, en er von á einhverjum fréttum úr Vesturbænum?
„Við gerum okkur grein fyrir því að liðið er í alvarlegri stöðu og við erum bara að skoða okkar mál," sagði formaðurinn við því.
Athugasemdir