Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   þri 30. nóvember 2021 19:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Það eru aldrei læti í mér í hálfleik, það er staðreynd"
Icelandair
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland vann 4-0 en frammistaðan hefði getað verið betri.
Ísland vann 4-0 en frammistaðan hefði getað verið betri.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðsins, var ekki nægilega sáttur með frammistöðuna gegn Kýpur í undankeppni HM, þrátt fyrir að íslenska liðið hafi unnið 0-4 sigur.

Kýpverska liðið er mjög slakt. Á fréttamannafundi eftir leik var Steini spurður að því hvort hann hefði viljað sjá liðið skora meira.

„Maður lítur ekki endilega á það þannig. Maður lítur frekar á það þannig að ég hefði viljað sjá okkur spila betur. Ég hefði viljað sjá okkur skapa meira," sagði landsliðsþjálfarinn.

„Við sköpuðum okkur ekki nógu mikið í þessum leik. Það var of mikið af sendingarfeilum. Við ætluðum að halda boltanum betur í seinni hálfleik og mér fannst við fara of mikið í að spila þvert og til baka. Við vorum ekki að ógna og koma boltanum fram á við - við fórum of mikið í öruggu leiðina. Við töluðum um það að vera rólegar á boltanum, færa hann og bíða eftir opnuninni en við vorum ekki nægilega beinskeytt í að koma með hlaup og búa til möguleika til að spila inn í."

Hann var spurður að því hvort hann hefði æst sig eitthvað í hálfleik „Það eru aldrei læti í mér í hálfleik, það er staðreynd."

Um seinni hálfleikinn, sagði hann: „Mér fannst við ekki nógu ógnandi. Við vorum ekki kraftmikil í að skapa okkur færi og að koma okkur í þær stöður svo að möguleikar væru til að búa til færi. Seinni hálfleikurinn var heilt yfir flatur."

„Við skoruðum fjögur mörk og maður getur aldrei skammast sín fyrir það. Í svona keppni, í svona riðli þá snýst þetta um að vinna fótboltaleiki. Við höfum talað um að við viljum vera í bílstjórasætinu og að við viljum stjórna örlögum okkar sjálf. Við erum í því bílstjórasæti í dag og ef við höldum áfram að vinna fótboltaleiki, þá endum við á góðum stað í þessum riðli."

Ísland er tveimur stigum frá Hollandi þegar árið er á enda. Holland hefur spilað leik meira en Ísland. Steini er ekkert farinn að spá í leikinn ytra við Hollendinga.

„Ég er ekkert farinn að spá í Holland, ekki nokkurn skapaðan hlut. Við eigum fullt af leikjum þangað til við eigum Holland næst. Ég gat horft á stóran hluta fyrri hálfleiks á laugardaginn. Ég horfði á það, en að öðru leyti hef ég ekkert spáð í þær. Við þurfum að standa okkur í öðrum leikjum til þess að við komumst í þann leik eins og við viljum að Hollandsleikurinn verði."

Það eru ekki leikir á næstunni. Hvað tekur þá við hjá landsliðsþjálfaranum?

„Við þurfum að fara yfir árið og undirbúa næsta ár - það snýst um það. Svo fer þetta í að undirbúa næsta verkefni sem verður um miðjan febrúar. Næstu tveir mánuðir fara í að gera þessa hluti og halda áfram að undirbúa liðið undir eitthvað gott."

Hann er sáttur með sitt fyrsta ár sem landsliðsþjálfari.

„Ég get ekki verið annað en sáttur. Ég er sáttur við það hvernig árið hefur þróast og hvernig liðið hefur þróast. Ég er glaður með það og bjartsýnn," sagði Þorsteinn.
Athugasemdir
banner