Kjartan Henry Finnbogason hefur ákveðið að taka sér frí frá þjálfun um ókominn tíma, hann segir þó ef spennandi tækifæri kemur upp mun hann skoða málið.
Líkt og greint var frá fyrr í dag þá átti Kjartan í samræðum við FH um áframhaldandi starf í Kaplakrika sem aðstoðarþjálfari en þær viðræður runnu út í sandinn.
Fótbolti.net ræddi við Kjartan Henry um komandi framtíð hans í þjálfaramálum.
„Ég hef ekkert verið að trana mér fram, þvert á móti. Ég tók ákvörðun fyrir nokkrum vikum síðan að taka mér frí frá þjálfun. Þetta er ekkert drastískt og ég útiloka ekkert. Ég er búinn að fá mörg símtöl, en flest þeirra komu þegar lítið var eftir af mótinu og þá einhver lið að hlera en ég hef ekki viljað taka neina ákvörðun og hoppa á neitt ennþá. Ég held að ástæðan fyrir því er sú að það hafi ekki verið nægilega spennandi.“
„Ég hef líka verið atvinnumaður síðan 2005 og allt mitt líf og tilvera hefur snúist um fótbolta. Síðan fer ég beint frá því að vera leikmaður og beint í þjálfun, þá fer sennilega meiri tími í þetta. Maður missir af mörgu, sem er partur af þessu. Ég hugsa að ég taki mér núna smá pásu. Það þýðir ekki að ef það kemur eitthvað sjúklega spennandi þá er ég klárlega opinn fyrir því.“
Það hafa því mörg lið sýnt þér áhuga?
„Já, það hafa einhver lið hringt. Ég hef ekkert farið með neitt lengra, þetta var byrjað þegar mótið var enn í gangi og maður var með hugann við annað. Svo hefur maður kannski ekki svarað og lið hafa þá bara leitað annað, sem er bara besta mál.“
Ef eitthvað kæmi upp sem heillaði, yrði það að vera aðalþjálfarastarfið?
„Nei, alls ekki þannig. Ég er ekkert kominn á þann stað að ég sé of góður fyrir að vera aðstoðarþjálfari. Fyrir þá sem ekki vita þá er það aðstoðarþjálfarinn sem gerir allt. Það er hann sem setur upp æfingarnar, klippir og greinir en aðalþjálfarinn stendur uppi með ábyrgðina,“ segir Kjartan léttur og heldur áfram.
„Ég er búinn að læra ótrúlega margt af þeim sigursælasta sem er ótrúlega góð reynsla fyrir mig. Ég er þakklátur FH fyrir að gefa mér það tækifæri. Ég er ekkert kominn á þann stað að ég sé aðalþjálfari eða ekki, en ef menn fara í þetta þá hlýtur það að vera markmiðið á endanum.“



