Jóhann Helgi Hannesson framherji Þórs var til viðtals eftir 0-1 tap liðsins gegn ÍBV í Lengjudeildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Þór 0 - 1 ÍBV
Jóhann Helgi hefur lent í allmörgum höfuðhöggum á ferlinum en þessi 31 árs gamli leikmaður sem hefur alla tíð leikið með Þór með smá viðkomu til Grindavíkur, mun leggja skóna á hilluna eftir þetta tímabil.
„Staðan er bara allt í lagi, ég finn ekkert fyrir eins og er en ég á bara þrjá leiki eftir á ferlinum og að miklu leiti er það vegna þess að ég nenni ekki að fá fleiri höfuðhögg en eins og staðan er núna er þetta í lagi."
Sérfræðingar hafa ekki verið að ýta á hann að hætta í fótbolta.
„Þeir vildu meina að ég hafi verið kominn á einhvern núll punkt og ætti að vera búinn að jafna mig fyrir tveimur árum síðan en næsta höfuðhögg og þá var þetta bara komið á sama stað, það er leiðinlegt þegar hausinn er ekki í lagi og þá er þetta ekki jafn gaman þegar þarf svona lítið og þá steinliggur maður og þarf að fara útaf eftir 15 mínútur, þetta er bara frekar ömurlegt."
Jóhann Helgi gefur sig alltaf allan fram inn á vellinum.
„Það er nú kannski það sem hefur gefið mér mest að gefast ekki upp og halda áfram að berjast, ég kann ekkert annað."
„Það eru 19 dagar eftir, ætla bara að reyna njóta þeirra og klára þetta með sæmd."
Athugasemdir