City og Real keppa um Musiala - Newcastle vill Calvert-Lewin - Gyökeres eftirsóttur af enskum félögum
   mán 14. nóvember 2011 15:30
Magnús Már Einarsson
Páll Viðar: Þetta eru ekki falleg skilaboð frá KSÍ
Atli Sigurjónsson.
Atli Sigurjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Páll Viðar Gíslason, þjálfari Þórs, segir ennþá vera óljóst hvort Atli Sigurjónsson og Gísli Páll Helgason leiki með liðinu næsta sumar en báðir hafa þeir átt í viðræðum við félög í Pepsi-deildinni.

,,Ég verð að segja pass við þessu öllu. En eitt veit ég með vissu að þeir eru gallharðir Þórsarar og ég tek skýrt fram að hvorugur leikmaðurinn hefur óskað formlega eftir því að hann vilji fara frá Þór. Báðum leikmönnunum hefur verið boðin nýr tveggja ára samningur við Þór, sem þeir eru með undir höndum og liggja yfir þessa dagana. Þeir eru því boðaðir á æfingu á miðvikudaginn eins og allir aðrir samningsbundnir Þórsarar," sagði Páll Viðar við Fótbolta.net í dag.

Atli og Gísli Páll hafa verið í U21 árs landsliðshópi Íslands í haust líkt og Jóhann Helgi Hannesson framherji Þórs.

Allir þessir leikmenn duttu út úr hópnum fyrir leikinn gegn Englendingum í síðustu viku en Páll Viðar segir að Eyjólfur Sverrisson þjálfari U21 árs landsliðsins hafi gefið leikmönnunum þau skilaboð að þeir séu ekki inni í myndinni á meðan þeir eru hjá félagi í fyrstu deildinni.

,,Það eru orð sem ég hef eftir þeim, að þeir hafi fengið skýr skilaboð frá U21 árs landsliðsþjálfaranum. Hvort sem að það sé ástæðan fyrir því að þeir duttu allir út fyrir síðasta leik veit enginn nema hann sjálfur."

,,Mín persónulega skoðun er að ef að leikmennirnir eru nógu góðir til að vera í þessum landsliðshópum, þá eigi þeir að vera í liðinu, sama hvað liðið heitir eða hvaðan það kemur."

,,Þetta eru því ekki falleg skilaboð fyrir félög utan að landi ef að þetta eru skilaboðin frá þjálfurum KSÍ, að hypja sig suður til þess að eiga einhverja möguleika. Það er aðallega það sem stendur upp úr, mér finnst það vera slæm skilaboð fyrir félög utan að landi sem eru að reyna að gera einhverja hluti og ala upp knattspyrnumenn."

banner
banner
banner