
,,Það er ágætt að halda hreinu og við lögðum upp með það í dag að halda hreinu og reyna að setja eitt. Því miður tókst okkur það ekki en fengum góðan séns til þess í vítaspyrnu," sagði Björgvin Karl Gunnarsson þjálfari KR eftir markalaust jafntefli við ÍBV í kvöld.
,,Ég er ánægður með baráttuna og hugarfarið og allt sem við erum að gera í sjálfu sér. En við hefðum getað verið aðeins beittari fram á við, þá hefðum við getað skapað okkur meira."
,,Það gekk ekki að skora úr vítinu og svo fékk Kristín dauðafæri í restina en datt eiginlega áður en hún skaut boltanum. Auðvitað þurftum við að passa okkur hinum megin. Þær eru með mjög sterka leikmenn fram á við og við vissum það fyrirfram og náðum að loka á það nokkurn veginn."
Björgvin Karl sást skamma dómarann í leiknum. ,,Örlítið, en ekkert mikið," sagði hann.
,,Það voru nokkrir punktar en ekkert sem ég vil tjá mig um," sagði hann en aðspurður hvort hann hafi verið ósáttur við undirbúning dómarans fyrir leik sagði hann: ,,Ég tjái mig ekkert meira."