
Katrín Jónsdóttir fyrirliði íslenska landsliðsins var að vonum sátt með 3-1 sigur stúlkanna gegn Noregi í undankeppni EM í dag. Noregur er á blaði sterkasta lið riðilsins en þær voru svo sannarlega ekki sterkari en Ísland í dag.
Lestu um leikinn: Ísland 3 - 1 Noregur
„Þetta er bara frábært. Við ætlum að fá að njóta sigursins í dag en svo hefst náttúrulega undirbúningur fyrir annan leik á morgun,“ sagði Katrín við Fótbolta.net.
„Í fyrri hálfleik keyrum við yfir þær og ég tel að lykillinn að því að við spiluðum svona vel var sá að við vorum allar 11 að spila rosalega góða vörn eins og við höfum verið að gera allt þetta ár. Það gefur okkur svo mikið og maður hefur meiri orku í sóknina. Þá uppskerum við mörk.“
„Í seinni hálfleik erum við svo aðeins að halda fengnum hlut og dettum aðeins lengra til baka og hleypum þeim inn í leikinn. En það var mikil barátta og við höldum þetta út og vinnum. Þær sköpuðu sér ekki mikið og það segir bara eitthvað um styrk okkar liðs núna. Noregur hefur kannski verið með betra lið en þær eru samt með gott lið.“