City og Real keppa um Musiala - Newcastle vill Calvert-Lewin - Gyökeres eftirsóttur af enskum félögum
banner
   mið 09. maí 2012 14:39
Magnús Már Einarsson
Félagi vísað úr íslenska boltanum
Lykt af veðmálabraski
Mynd: Fótbolti.net - Raggi Óla
FFR, Fótboltafélaginu Fjólunni Reykjavík, hefur verið vísað úr keppni í þriðju deild karla og bikarkeppni KSÍ. Félagið var stofnað í vetur af þremur íslenskum aðilum en fljótlega var skipt um stjórn og erlendir aðilar tóku við stjórnartaumunum.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net eru aðilarnir í stjórn FFR frá Lettlandi en þeir voru byrjaðir að undirbúa félagaskipti á leikmönnum þaðan til Íslands og þeir leikmenn áttu að skipa lið FFR í þriðju deildinni í sumar.

Málið þykir lykta mjög af veðmálabraski og það þykir svipa til máls sem kom upp í Finnlandi fyrir nokkrum árum. Þá keyptu aðilar lið og skiptu öllum leikmönnum út fyrir nýja erlenda leikmenn.

Háum fjárhæðum var síðan veðjað á óvænt tap hjá liðinu í finnsku deildinni. Liðið tapaði leik sínum og í kjölfarið létu allir stjórnarmenn sig hverfa og hafa ekki sést síðan þá.

Þórir Hákonarson, framkvæmdastjóri KSÍ, vildi lítið tjá sig um málið í samtali við Fótbolta.net í dag en staðfesti að FFR hafi ekki fengið þátttökuleyfi í þriðju deildinni.

,,Þeir uppfylla ekki þau skilyrði sem íþróttahreyfingin setur fyrir þátttöku. Þeir eru ekki aðilar af héraðsambandi eða ÍSÍ," sagði Þórir við Fótbolta.net í dag en hann varðist allra frekari frétta af málinu.

Hafa reynt að kaupa íslensk félög:
Stjórnarmenn FFR hafa áður reynt að kaupa íslensk félög en án árangurs.
Fyrir nokkrum árum reyndu þessir aðilar að kaupa Grindavík og samkvæmt heimildum Fótbolta.net reyndu þeir á sama tíma að kaupa fleiri íslensk félög fyrir háar fjárhæðir en án árangurs.

FFR átti að leika í C-riðli í 3. deildinni í sumar en þar sem liðið fær ekki þátttökuleyfi verður leikinn þreföld umferð í þeim riðli í stað tvöfaldrar. FFR átti einnig að mæta Fáki í fyrstu umferð bikarsins en Fákur fer núna beint í aðra umferðina þar sem liðið mætir Víkingi R.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner