
,,Ég er bara drullusáttur, það er ekki hægt annað núna. Við erum búnir að vera að skíta á okkur í deildinni og komum svo í bikarinn sem er svona auka, þannig ég er bara sérstaklega sáttur," sagði Karl Brynjar Björnsson, leikmaður Þróttara eftir sigur liðsins á Val í 16-liða úrslitum Borgunarbikarsins í kvöld.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 2 - 1 Valur
Hörður Sveinsson kom Val yfir áður en Oddur Björnsson jafnaði metin. Leikurinn fór alla leið í framlengingu, en á lokamínútu framlengingar tryggði Karl Brynjar Þrótturum sigurinn.
,,Ég er búinn að gera þetta einu sinni áður, þriðja markið í sumar. Við þurfum bara að fara að skora meira í deildinni og halda hreinu, það er það sem skiptir máli. Þessi keppni er bara plús."
,,Við lögðum bara upp með að keyra á þá, þeir eru með hæga hafsenta sem eru lélegir á boltann. Það gekk bara mjög vel og upp og við vorum miklu betri allan leikinn.
,,Valur fékk nokkur hálffæri, en þetta átti aldrei að fara í framlengingu hefðum bara átt að klára þetta eftir venjulegan leiktíma og það hefði verið sanngjörnt. En það er sætara að vinna þetta eftir framlengingu."
,,Ég væri til í að fara í Krikann mæta FH, en það er svona það sem ég vil gera. Ég veit ekki með hina," sagði Karl Brynjar að lokum.
Hægt er að sjá viðtalið í heild sinni hér að ofan, en beðist er velvirðingar á að hljóðið sé á undan myndinni.
Athugasemdir