,,Það má segja ef maður horfir á leikinn í heildina, þá er mjög sárt að vera komnir yfir 1-0 og brenna af víti, einum fleiri og klára ekki leikinn," sagði Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Fram eftir 1-1 jafnteflið gegn Stjörnunni í dag.
,,Við gerum klaufaleg mistök enn og aftur og náum ekki að halda boltanum. Við náðum ekki að nýta liðsmuninn alveg nógu vel. Mér fannst við vera í góðum málum allan leikinn þannig séð, vorum duglegir og skipulagðir."
,,Við vorum sterkari aðilinn í heildina og í þessar 90 mínútur, en það eru mörkin sem að telja og við fáum ekki nema eitt stig vegna þess að við hefðum getað haldið boltanum aðeins betur síðustu tíu mínúturnar, róað leikinn og drepið þetta aðeins niður."
,,Það er ekki hægt að segja neitt annað að það er grátlegt að ekki sé hægt að taka öll stigin þegar þú átt sénsinn á því en það er svosem búin að vera saga okkar undanfarið. Það er mjótt á mununum og lítið út á að bera," sagði Þorvaldur að lokum.
Athugasemdir