Viðar Örn Kjartansson, markamaskína norska úrvalsdeildarliðsins Valerenga, er undir smásjá gríska liðsins AEK frá Aþenu.
Fjölmiðlar í Grikklandi greina frá því að forráðamenn AEK hafi fylgst gaumgæfilega með Viðari á síðasta ári og íhugi nú að gera tilboð í leikmanninn.
Viðar spilaði frábærlega í norsku deildinni á síðasta keppnistímabili og hampaði markakóngstitlinum með afgerandi hætti en hann skoraði samtals 31 mark fyrir liðið í 33 leikjum í öllum keppnum.
AEK, sem er eitt sigursælasta félagslið Grikklands, hefur átt undir högg að sækja undanfarin ár, bæði innan vallar sem utan. Mikil fjárhagsvandræði hafa steðjað að félaginu og spilar það nú í næstu efstu deild Grikklands eftir fall úr efstu deild.
Liðið trónir þó sem stendur taplaust í efsta sæti deildarinnar og eru góðar líkur á því að félagið komist aftur í hóp hina bestu í Grikklandi.
Eiður Smári Guðjohnsen var á mála hjá AEK tímabilið 2011-12 og þá lék Arnar Grétarsson um tíma með félaginu auk þess sem hann var um tíma yfirmaður knattspyrnumála þar á bæ.
Athugasemdir


