Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   þri 14. júní 2016 23:13
Magnús Már Einarsson
Gylfi: Hefði hlaupið upp í stúku ef hann hefði farið inn
Hlustaðu á viðtalið í spilaranum
Icelandair
Gylfi í leiknum í kvöld.
Gylfi í leiknum í kvöld.
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
„Þetta er frábær byrjun á þessu móti. Við sýndum mikinn karakter með því að koma til baka eftir að hafa lent 1-0 undir," sagði Gylfi Þór Sigurðsson eftir 1-1 jafnteflið gegn Portúgal í kvöld.

„Við höfum sýnt það í gegnum tíðina að við erum mjög góðir í að spila mismunandi fótbolta. Í dag voru það vörnin og löngu boltarnir sem voru númer 1 og 2 hjá okkur. Það hentaði vel."

„Við vildum ekki gera nein mistök með því að gefa þeim boltann á okkar eigin vallarhelmingi til að þeir geti sótt hratt á okkur. Þeir eru með Nani og Ronaldo sem eru mjög gríðarlega snöggir og geta refsað. Þetta gekk ágætlega upp. Ég held að ég hafi fengið boltann 5-6 sinnum í leiknum en við fengum eitt stig og það er það sem skiptir máli."


Gylfi fékk færi í byrjun leiks en Rui Patricio, markvörður Portúgala, varði tvívegis vel frá honum.

„Það var algjör klaufaskapur að hafa ekki skorað. Ég sá Kolla á fjær og hugsaði um að gefa hann fyrir með vinstri en ákvað að kötta inn og fara sjálfur í skot. Carvalho var í tæklingu að blokka fjærhornið svo ég ákvað að skjóta í nærhornið en það var ekki alveg nógu gott skot. Ef sá bolti hefði farið inn þá hefði ég örugglega hlaupið upp í stúku," sagði Gylfi léttur.

„Birkir reddaði mér, hann skoraði í seinni hálfleik. Við hefðum kannski tapað leiknum ef ég hefði skorað svona snemma, maður veit aldrei. Þetta átti að gerast. Ég er ekki ánægður með að klúðra þessu færi. Þetta er augnablik sem ég hefði aldrei gleymt ef ég hefði skorað fyrir framan íslensku áhorfendurnar. Ég skora vonandi bara í næsta leik."

Gylfi meiddist á ökkla í fyrri hálfleik en hann segir að þau meiðsli séu ekki alvarleg. „Ég er aumur núna en það er klaki næstu tvo dagana og ég verð klár í næsta leik," sagði Gylfi.
Athugasemdir
banner