Jesus gæti farið frá Arsenal - Möguleg stjóraskipti hjá Man Utd og Bayern - Dortmund vill halda Sancho
   mið 22. júní 2016 20:21
Magnús Már Einarsson
Skrifar frá Paris
Hannes: Væri alltof væmin og ótrúverðug Hollywood mynd
Icelandair
Hannes fagnar með íslenska fánann í leikslok.
Hannes fagnar með íslenska fánann í leikslok.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ef þetta væri Hollywood íþróttamynd þá væri hún alltof væmin og ótrúverðug. Það myndi enginn kaupa þetta," sagði Hannes Þór Halldórsson, markvörður Íslands, eftir ótrúlegan 2-1 sigurinn á Austurríki í kvöld.

Arnór Ingvi Traustason skoraði sigurmarkið með síðustu spyrnu leiksins og Hannes hljóp að sjálfsögðu upp völlinn til að fagna markinu.

„Ég tók sprettiinn fram og hoppaði á hrúguna. Svo flautaði hann af og þá lagðist ég í grasið og grenjaði eins og smábarn. Ég réð ekkert við tilfinningarnar," sagði Hannes.

„Bara það að hafa náð að vinna sig út úr þessum meiðslum sem ég var í er nógu stór sigur en að hlutirnir hafi gengið svona vel upp er lyginni líkast," bætti Hannes við en hann faðmaði fjölskyldu sína eftir leik. „Þar brotnaði ég aftur saman. Við grenjuðum saman þar. Þetta var svo stórt móment að það er varla hægt að lýsa því,"

YouTube augnablikið beið
Hannes var stálheppinn í fyrri hálfleik þegar Marko Arnautovic var nálægt því að vinna boltann af honum í markteignum.

„Ég var hársbreidd frá því að gera mig að fífli. Það sýnir hvað er stutt á milli í þessu. Ég hikaði í hálfa sekúndu af því ég sá engan til að gefa á. Þá var hann kominn ofan í mig og YouTube augnablikið var að bíða eftir mér. Það reddaðist og í staðinn upplifði maður stórkostlega augnablik fótboltaferilsins og eiginlega lífsins."

Hefði varið vítið
Austurríkismenn fengu vítaspyrnu í fyrri hálfleik. Aleksandar Dragovic tók spyrnuna en hún fór framhjá markinu. Hannes fór í rétt horn og segist hafa verið með boltann.

„Það var hálf svekkjandi að hann hafi ekki sett hann á markið. Það hefði verið gaman að loka honum þar," sagði Hannes sem hafði nóg að gera í dag.

„Það er alltaf gaman að hafa eitthvað að gera. Við liggjum svolítið lágt í þessum leikjum og það er alltaf eitthvað sem sleppur í gegn. Þetta hefur virkað hingað til og við erum taplausir. Þetta er bara geðveikt."

„Við ætlum lengra"
Ísland mætir Englandi í 16-liða úrslitunum í Nice á mánudagskvöldið. „Það bætir bara á þetta móment að þetta mark í lokin tryggir okkur að mæta loksins Englandi. Við fáum fleiri daga í Frakklandi og núna brosir lífið við okkur. Við fögnum í kvöld en svo förum við að gíra okkur í England því að við ætlum lengra," sagði Hannes.
Athugasemdir
banner
banner