Man Utd og Dortmund vinna að skiptidíl - Osimhen til Chelsea?
banner
   fim 04. maí 2017 10:00
Fótbolti.net
Spá þjálfara og fyrirliða í Inkasso-deildinni: 1. sæti
watermark Keflvíkingum er spáð toppsætinu í sumar.
Keflvíkingum er spáð toppsætinu í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Jónas Guðni Sævarsson er einn af reynsluboltunum í liði Keflavíkur.
Jónas Guðni Sævarsson er einn af reynsluboltunum í liði Keflavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
watermark Anton Freyr Hauksson, varnarmaður Keflvíkinga.
Anton Freyr Hauksson, varnarmaður Keflvíkinga.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Inkasso-deildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.

Spáin:
1. Keflavík 230 stig
2. Fylkir 222 stig
3. Þróttur R. 204 stig
4. Þór 161 stig
5. Selfoss 159 stig
6. Leiknir R. 141 stig
7. Fram 124 stig
8. Haukar 120 stig
9. HK 93 stig
10. ÍR 54 stig
11. Leiknir F. 41 stig
12. Grótta 35 stig

1. Keflavík
Lokastaða í fyrra: 3. sæti í Inkasso-deildinni
Eftir fall úr Pepsi-deildinni árið 2015 þá stefndu Keflvíkingar á að fara beint aftur upp í fyrra. Keflvíkingar voru lengi viðloðandi toppbaráttuna en ætlunarverkið tókst ekki. Þar munaði mest um að liðið gerði jafntefli í helming leikja sinna.

Þjálfarinn: Þorvaldur Örlygsson lét af störfum eftir síðasta tímabil og Guðlaugur Baldursson tók við stöðu hans. Laugi hefur undanfarin ár verið aðstoðarþjálfari FH en þar áður þjálfaði hann ÍR við góðan orðstír.

Styrkleikar: Það var hvalreki fyrir Keflvíkinga að fá danska framherjann Jeppe Hansen. Hann gæti raðað inn mörkum í Inkasso-deildinni í sumar eftir að hafa undanfarin ár spilað með Stjörnunni og KR í Pepsi-deildinni. Liðið er með öfluga erlenda leikmenn því auk Jeppe bættust Juraj Grizel og Marko Nikolic við í vetur og þá er skoski varnarmaðurinn Marc McAusland áfram á mála hjá liðinu. Fyrir utan erlendu leikmennina þá er leikmannahópurinn skipaður uppöldum Keflvíkingum sem eru tilbúnir að berjast fyrir sitt félag. Margir ungir og efnilegir heimamenn eru í hópnum sem og nokkrir eldri og reyndari leikmenn sem fór upp úr 1. deildinni með Keflavík árið 2003!

Veikleikar: Keflvíkingum gekk illa að kreista fram sigurleiki í jöfnum leikjum í Inkasso-deildinni í fyrra og ellefu jafntefli segja alla söguna þar. Mikil meiðsli eru í hópnum þessa dagana og fastamenn missa af fyrstu leikjum sumarsins vegna meiðsla. Þar á meðal er Sigurbergur Elísson sem var frábær í fyrra. Hann verður ekki klár fyrr en í júní. Keflvíkingar koma því vængbrotnir inn í mótið og tap gegn 2. deildarliði Víðis Garði í Borgunarbikarnum um síðustu helgi lætur viðvörunarbjöllur hringja.

Lykilmenn: Jeppe Hansen, Marc McAusland og Sigurbergur Elísson.

Gaman að fylgjast með: Keflavík er með marga unga og spennandi leikmenn sem fá stór hlutverk í sumar. Þar á meðal er varnarmaðurinn Anton Freyr Hauksson. Spennandi verður að sjá hann við hlið Marc McAusland í hjarta varnarinnar.

Komnir:
Aron Elís Árnason frá Noregi
Jeppe Hansen frá KR
Juraj Grizelj frá KA
Marko Nikolic frá Huginn

Farnir:
Axel Kári Vignisson í ÍR
Bojan Stefán Ljubicic í Fjölni
Craid Reid
Guðmundur Magnússon í Fram
Haraldur Freyr Guðmundsson hættur
Magnús Sverrir Þorsteinsson hættur
Magnús Þórir Matthíasson
Stuart Carswell

Fyrstu leikir Keflavíkur
5. maí Leiknir R. - Keflavík
13. maí Keflavík - Leiknir F.
21. maí Fylkir – Keflavík
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner