Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Inkasso-deildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. ?
10. ÍR 54 stig
11. Leiknir F. 41 stig
12. Grótta 35 stig
10. ÍR
Lokastaða í fyrra: 1. sæti í 2. deild
ÍR-ingar eru mættir aftur í næstefstu deild eftir fjögur ár í 2. deildinni. Breiðhyltingar höfðu mikla yfirburði í 2. deildinni í fyrra en þeir töpuðu einungis tveimur leikjum og fóru upp um deild með glæsibrag.
Þjálfarinn: Arnar Þór Valsson stýrir liði ÍR fjórða árið í röð. Addó er einn leikjahæsti leikmaður ÍR frá upphafi en hann lagði skóna á hilluna í júlí árið 2006. Hann tók síðan við þjálfun liðsins haustið 2012.
Styrkleikar: Góð stemning var í kringum ÍR liðið í 2. deildinni í fyrra og liðsheildin sterk. Því þarf að viðhalda í Inkasso-deildinni í sumar. Framherjinn Jón Gísli Ström skoraði 22 mörk í 21 leik með ÍR í fyrra og spennandi verður að sjá hann aftur í næstefstu deild eftir nokkur ár í 2. deildinni. Uppaldir ÍR-ingar eru í stórum hlutverkum og þeir ættu að vera tilbúnir að vaða eld og brennistein fyrir liðið í sumar.
Veikleikar: Varnarleikurinn var öflugur hjá ÍR í fyrra en liðið hefur ekki náð að stilla upp sömu varnarlínu í vetur. Kristján Ómar Björnsson og markvörðurinn Magnús Þór Magnússon eru horfnir á braut, Trausti Björn Ríkharðsson tók sér frí frá fótbolta og miðverðirnir Björn Anton Guðmundsson og Halldór Arnarsson hafa lítið verið með í vetur. Spurning er hvort ÍR-ingar hafi styrkt sig nægilega mikið fyrir átökin deild ofar. Gengi ÍR var dapurt á undirbúningstímabilinu en liðið vann ekki leik á Reykjavíkurmótinu og í Lengjubikarnum.
Lykilmenn: Björn Anton Guðmundsson, Jón Gísli Ström, Stefán Þór Pálsson.
Gaman að fylgjast með: Sergine Fall, frá Senegal, er eldfljótur kantmaður sem kom til ÍR frá Vestra um mitt sumar í fyrra. Fall gæti valdið usla með ferðum sínum upp vænginn í sumar.
Komnir:
Axel Kári Vignisson frá Keflavík
Jordan Farahani frá Hetti
Reynir Haraldsson frá Fylki
Stefán Þór Pálsson frá Víkingi R.
Steinar Örn Gunnarsson frá Fjölni á láni
Viktor Örn Guðmundsson frá KV
Farnir:
Alexander Kostic í Gróttu
Andri Már Hermannsson í Gróttu
Árni Þór Jakobsson í Þrótt R. (Var á láni)
Daði Ólafsson í Fylki (Var á láni)
Kristján Ómar Björnsson í Álftanes
Sigurður Gísli Snorrason í FH (Var á láni)
Styrmir Erlendsson í Fylki (Var á láni)
Fyrstu leikir ÍR
5. maí Selfoss - ÍR
12. maí ÍR - Þróttur R.
21. maí Haukar - ÍR
Athugasemdir