fös 29. nóvember 2019 22:38
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ornstein: Arsenal lítur á Pochettino sem möguleika
Mauricio Pochettino.
Mauricio Pochettino.
Mynd: Getty Images
Ljungberg stýrir Arsenal til bráðabirgða.
Ljungberg stýrir Arsenal til bráðabirgða.
Mynd: Getty Images
Hinn mjög svo áreiðanlegi David Ornstein segir að Arsenal líti á Mauricio Pochettino sem möguleika þegar kemur að valinu á næsta stjóra liðsins.

Unai Emery var rekinn í morgun eftir slakt gengi að undanförnu.

Pochettino, 47 ára gamall Argentínumaður, var rekinn frá Tottenham, helstu erkifjendur Arsenal, í síðustu viku eftir fimm og hálft ár hjá félaginu. Þrátt fyrir gríðarlegan ríg á milli Arsenal og Tottenham, þá er stjórn Arsenal að íhuga hann sem næsta stjóra félagsins.

Það er óvíst hvernig Pochettino myndi taka því ef Arsenal myndi hafa samband. Ornstein segir að þetta sé ólíklegt skref fyrir Pochettino þar sem það myndi eyðileggja samband hans við stuðningsmenn Tottenham.

Pochettino og þjálfarateymi hans býr í London. Það er líklegt að Arsenal muni finnast það heillandi hversu vel Pochettino hefur tekist að þróa unga leikmenn. Í hópi Arsenal í dag eru efnilegir leikmenn eins og Joe Willock, Bukayo Saka, Emile Smith-Rowe og Reiss Nelson til dæmis.

Hann náði merkilegum árangri með Tottenham, náði bæði silfri í ensku úrvalsdeildinni og í Meistaradeildinni. Spurs tapaði úrslitaleik Meistaradeildarinnar gegn Liverpool á síðasta tímabili, jafnvel þó svo að Pochettino hafi ekki fengið að styrkja leikmannahópinn fyrir tímabilið.

„Ef Pochettino tæki við á Emirates þá yrði það ein ólíklegasta og umdeildasta ráðning síðustu ára," skrifar Ornstein.

Pochettino hefur áður talað um að hann muni ekki taka við Barcelona og Arsenal út af því hvernig honum líður gagnvart Tottenham og Espanyol (nágrönnum Barcelona).

Það hefur hins vegar ekki stöðvað stjórnendur Arsenal að ræða hann sem möguleika.

Að vinna fyrir bæði Arsenal og Tottenham er eitthvað sem ekki margir hafa upplifað. George Graham þjálfaði bæði lið, en var aldrei tekinn í sátt hjá stuðningsmönnum Tottenham eftir að hafa náð frábærum árangri með Arsenal.

Sol Campbell er líklega stærsta nafnið af leikmönnum sem hefur spilað með báðum félögum. Hann yfirgaf Tottenham á frjálsri sölu árið 2001 og fór til Arsenal. Eftir þau skipti fékk hann morðhótanir frá Spurs stuðningsmönnum.

Arsenal er ekki eina félagið sem hefur áhuga á Pochettino. Bayern München hefur líka áhuga og þá hefur hann síðustu árin verið mikið orðaður við Manchester United og Real Madrid.

Freddie Ljungberg var ráðinn stjóri til bráðabirgða og stýrir Arsenal gegn Norwich á sunnudag.

Ljungberg er fyrrum leikmaður Arsenal, en hann hefur verið hluti af þjálfarateyminu. Guardian segir frá því að Svíinn vilji fá starfið til frambúðar og að hann gæti fengið ráðningu út tímabilið.

Ornstein segir að Arsenal sé ekki að flýta sér að ráða nýjan stjóra þar sem Ljungberg sé treyst, þó er talið að það gæti verið of stórt skref fyrir hann, einhvern sem hefur ekki verið aðalþjálfari á hæsta stigi, að fá starfið til frambúðar. Það er svipuð hugsun í gangi varðandi Mikel Arteta, fyrrum leikmann Arsenal sem er núna aðstoðarstjóri Pep Guardiola hjá Manchester City; hvort skrefið sé mögulega of stórt fyrir hann.

Eini munurinn er sá að Arteta fékk næstum því starfið þegar Arsene Wenger hætti árið 2018. Hann er á fjórða ári sínu sem aðstoðarmaður Guardiola.

Sjá einnig:
Tíu sem gætu tekið við af Emery hjá Arsenal

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner