Aké hafnar West Ham - Johnson að skrifa undir hjá Palace - Úrvalsdeildarfélög vilja Nwaneri - Man Utd skoðar Mateta - Vuskovic vekur áhuga
   fim 01. janúar 2026 23:34
Ívan Guðjón Baldursson
Andrews vildi sjá Romero fjúka útaf
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Keith Andrews þjálfari Brentford svaraði spurningum eftir markalaust jafntefli á heimavelli gegn Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Leikurinn var tíðindalítill og bragðdaufur en Andrews var ósáttur með eina stóra dómaraákvörðun þar sem hann vildi sjá Cristian Romero fyrirliða Tottenham fjúka af velli með rautt spjald.

   01.01.2026 23:14
Myndband: Brentford vildi rautt spjald og Tottenham vítaspyrnu


Romero átti klaufalega tæklingu sem aftasti varnarmaður þar sem hann tók Igor Thiago, framherja Brentford, niður en náði líka boltanum. Andy Madley dómari dæmdi ekki, þess í stað fór Tottenham í sókn og vildi Archie Gray fá dæmda vítaspyrnu eftir að hafa fallið til jarðar innan vítateigs tæpri mínútu síðar.

Gray var að spóla sig í gegnum vörn Brentford og var með þrjá menn í sér þegar Kevin Schade fór utan í hann með þeim afleiðingum að Gray féll til jarðar, en aftur sleppti Madley því að flauta.

„Ég fór eftir leik til að spyrja dómarann út í þessa tæklingu hans (Cristian) Romero. Ég veit hversu erfitt það er að vera dómari og mér finnst mikilvægt að geta fengið útskýringar frá dómurum. Það eru heilbrigð samskipti," sagði Andrews.

„Dómarinn sagði að dómarateymið hafi ekki metið þetta sem ólöglega tæklingu og VAR-herbegið taldi þetta ekki vera augljós mistök svo þeir ákváðu að skerast ekki inn í. Ég er augljóslega ósammála þeirri niðurstöðu. Þetta er í annað sinn í tveimur leikjum sem Romero sleppur við að fá rautt spjald fyrir tæklingu á Igor Thiago. Það er ótrúlegt að hann hafi ekki fengið rautt spjald í fyrri leiknum.

„Það er ákveðin kaldhæðni fólgin í því að VAR-teymið eyddi tíma í að skoða hvort ætti að dæma vítaspyrnu án þess að skoða atvikið með Romero betur þar sem hann átti að fá rautt spjald en ekkert var dæmt. Ég hefði verið mjög ósáttur ef þeir hefðu fengið vítaspyrnu beint eftir að hafa sloppið við rautt spjald.

„Við erum ekki lið sem dýfir sér, við erum mjög heiðarlegt fótboltalið. Í þessu tilviki var augljóslega brotið á Thiago."


Thomas Frank, sem gerði magnaða hluti við stjórnvölinn hjá Brentford, snéri aftur á sinn gamla heimavöll í fyrsta sinn eftir félagaskipti sín síðasta sumar. Andrews þekkir vel til Frank eftir að hafa verið partur af þjálfarateyminu hans hjá Brentford á síðustu leiktíð.

„Það er alltaf gaman að mæta Thomas (Frank), þetta er einstaklingur sem ég ber mikla virðingu fyrir. Ég naut þess að starfa með honum á síðustu leiktíð.

„Í kvöld fannst mér við vera betra liðið og ef einhver átti skilið að sigra þennan leik, þá vorum það við."


Tottenham og Brentford áttust við í byrjun desember og þá höfðu lærlingar Thomas Frank betur á Tottenham Hotspur Stadium.

„Við spiluðum mun betur í dag heldur en fyrir 26 dögum. Við spiluðum hratt og þeir reyndu að hægja á spilinu. Markvörðurinn þeirra fékk gult spjald fyrir tímasóun og það segir allt sem segja þarf um hvernig þetta spilaðist."
Stöðutaflan England Premier league - karlar
  L U J T ms: mf: mun Stig
1 Arsenal 19 14 3 2 37 12 +25 45
2 Man City 19 13 2 4 43 17 +26 41
3 Aston Villa 19 12 3 4 30 23 +7 39
4 Liverpool 19 10 3 6 30 26 +4 33
5 Chelsea 19 8 6 5 32 21 +11 30
6 Man Utd 19 8 6 5 33 29 +4 30
7 Sunderland 19 7 8 4 20 18 +2 29
8 Everton 19 8 4 7 20 20 0 28
9 Brentford 19 8 3 8 28 26 +2 27
10 Crystal Palace 19 7 6 6 22 21 +1 27
11 Fulham 19 8 3 8 26 27 -1 27
12 Tottenham 19 7 5 7 27 23 +4 26
13 Newcastle 19 7 5 7 26 24 +2 26
14 Brighton 19 6 7 6 28 27 +1 25
15 Bournemouth 19 5 8 6 29 35 -6 23
16 Leeds 19 5 6 8 25 32 -7 21
17 Nott. Forest 19 5 3 11 18 30 -12 18
18 West Ham 19 3 5 11 21 38 -17 14
19 Burnley 19 3 3 13 20 37 -17 12
20 Wolves 19 0 3 16 11 40 -29 3
Athugasemdir
banner