Powerade býður lesendum Fótbolta.net gleðilegt nýtt ár með stútfullum slúðurpakka frá enska ríkismiðlinum BBC. Það er úr nógu að taka í dag enda er félagaskiptagluggi vetrarins opinn.
Hollenski varnarmaðurinn Nathan Aké, 30, hefur hafnað félagaskiptum til fallbaráttuliðs West Ham United. Man City vill selja Aké sem hefur komið við sögu í 13 leikjum á tímabilinu, sjaldnast sem byrjunarliðsmaður. (Talksport)
Juventus er að íhuga að gera lánstilboð í Federico Chiesa, 28 ára kantmann Liverpool, en Englandsmeistararnir þurfa fyrst að fá inn nýja sóknarleikmenn áður en þeir geta hleypt Ítalanum burt. (Liverpool Echo)
FC Bayern og PSG munu berjast við Manchester United um kantmanninn efnilega Yan Diomande, sem er 19 ára. Diomande er staddur með Fílabeinsströndinni í Afríkukeppninni þessa stundina og er Leipzig talið vilja fá um 60 til 70 milljónir evra fyrir táninginn. (Sky Sports)
Búist er við að Brennan Johnson, 24 ára kantmaður Tottenham og velska landsliðsins, gangist undir læknisskoðun hjá Crystal Palace á næsta sólarhring. Tottenham samþykkti 35 milljón punda tilboð frá Palace. (Telegraph)
Liverpool ætlar líklega ekki að endurkalla Harvey Elliott, 22, úr láni frá Aston Villa þrátt fyrir afar lítinn spiltíma. (Liverpool Echo)
Bournemouth er eitt af nokkrum félagsliðum úr ensku úrvalsdeildinni sem hafa áhuga á Ethan Nwaneri, 18 ára sóknartengiliði Arsenal. (Daily Mail)
Juventus hefur mikinn áhuga á að fá miðjumanninn Sandro Tonali, 25, aftur í ítalska boltann. Newcastle vill þó ekki selja hann. (Fichajes)
Borussia Dortmund ætlar aðeins að reyna að krækja í Oscar Bobb, 22, frá Man City ef félaginu tekst að losa sig við Íslendinginn Cole Campbell eða Julien Duranville, sem eru 19 ára gamlir, i janúarglugganum. (Sky Germany)
Eddie Nketiah, 26 ára framherji Crystal Palace, virðist ekki vera á leið til West Ham eftir að hafa orðið fyrir meiðslum á nára. (Talksport)
West Ham er að nálgast samkomulag við portúgalska félagið Gil Vicente um kaup á framherjanum Pablo, sem verður 22 ára á morgun. (Guardian)
Brighton fylgist náið með Caleb Yirenkyi, 19 ára miðjumanni FC Nordsjælland og landsliðs Gana. Brighton hefur áður keypt Simon Adingra og Ibrahim Osman úr röðum Nordsjælland. (Sky Sports)
Man Utd hefur áhuga á Jean-Philippe Mateta, 28 ára framherja Crystal Palace sem er aðeins með eitt og hálft ár eftir af samningi við bikarmeistarana. (Football Insider)
Tyrknesku meistararnir í stórveldi Galatasaray hafa áhuga á að krækja í manuel Ugarte, 24, á lánssamningi frá Man Utd. (CaughtOffside)
Celtic er í viðræðum við Bournemouth um að fá varnarmanninn Julian Araújo, 24, á lánssamningi út tímabilið. Celtic vonast til að fá varnarmanninn fyrir nágrannaslaginn við Rangers á laugardaginn. (Daily Record)
Luka Vuskovic, 18 ára miðvörður Tottenham á láni hjá Hamburger SV, hefur vakið áhuga frá þýsku stórveldunum FC Bayern og RB Leipzig. Tottenham vill ekki selja táninginn. (CaughtOffside)
Eduardo Camavinga, 23 ára miðjumaður franska landsliðsins, vill vera áfram hjá Real Madrid þrátt fyrir áhuga frá Englandsmeisturum Liverpool. (Teamtalk)
West Ham er að undirbúa tilboð í kantmanninn Adama Traore sem er 29 ára og leikur með Fulham. (Football Insider)
Athugasemdir



