Gary Neville talaði um Manchester United og Ruben Amorim eftir jafntefli Rauðu djöflanna á heimavelli gegn Wolves í ensku úrvalsdeildinni síðasta þriðjudagskvöld.
Neville, sem lék með Man Utd á ferli sínum sem leikmaður og starfar í dag sem fótboltasérfræðingur hjá Sky Sports, gagnrýndi Amorim fyrir val á leikkerfi og fyrir lélegar skiptingar.
Lokatölur urðu 1-1 í leik þar sem Úlfarnir voru að lokum hættulegri og líklegri til að hreppa sigur, en Senne Lammens bjargaði United með góðum markvörslum.
Amorim gerði aðeins eina breytingu á byrjunarliðinu sem lagði Newcastle að velli um helgina, þar sem Joshua Zirkzee tók sæti Mason Mount í holunni fyrir aftan fremsta sóknarmann. Zirkzee endurlaunaði traustið með marki í fyrri hálfleik en Úlfarnir jöfnuðu fyrir leikhlé. Amorim ákvað þá að gera breytingu í hálfleik þar sem hinn 18 ára gamli Jack Fletcher kom inn af bekknum fyrir Zirkzee.
Þjálfarinn útskýrði að breytingin hafði verið taktísks eðlis þegar hann var spurður af fréttamönnum að leikslokum.
„Hver einasta skipting sem hann gerði í þessum leik var skrýtin, þær gerðu liðið veikara. Ákvörðunin að taka Zirkzee útaf í hálfleik er ömurleg," sagði Neville meðal annars í spjallvarpsþættinum sínum.
„Ég er ekki að segja að hann sé Eric Cantona en við þurftum á honum að halda á miðsvæðinu, hann er líkamlega sterkur og með reynslu auk þess að hafa skorað í leiknum. Það átti ekki að vera hægt að taka hann útaf, þetta var gjörsamlega fáránleg skipting. Ég vona hans (Amorim) vegna að Zirkzee hafi verið meiddur."
Athugasemdir



