Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 01. febrúar 2021 09:43
Magnús Már Einarsson
Hver er þessi Ben Davies sem Liverpool er að kaupa?
Ben Davies er á leið til Liverpool.
Ben Davies er á leið til Liverpool.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Liverpool mun í dag kaupa varnarmanninn Ben Davies frá Preston North End á 1,6 milljón punda en hann er á leið í læknisskoðun hjá enska félaginu.

Virgil Van Dijk, Joe Gomez og Joel Matip, miðverðir Liverpool, eru allir meiddir sem og Fabinho sem hefur spilað mikið í miðverði á tímabilinu.

Jordan Henderson og Nathaniel Phillips stóðu vaktina í hjarta varnarinnar í sigrinum á West Ham í gær en á sama tíma bárust fréttir af því að Liverpool væri að kaupa Davies.

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, sagði í janúar að það yrði erfitt fjárhagslega fyrir félagið að fá miðvörð en í ljósi mikilla meiðsla ákvað hann að kafa dýpra og leita að ódýrum leikmanni.

Var á leið til Celtic
Hinn 25 ára gamli Davies verður samningslaus í sumar og því var Preston tilbúið að selja hann á tvær milljónir punda frekar en að missa hann frítt.

Davies var kominn langt í samningaviðræðum við skoska félagið Celtic áður en fyrsta símtalið kom frá Liverpool á fimmtudag. Það var síðan í gær sem Liverpool lagði fram formlegt tilboð í leikmanninn. Liverpool hafði í millitíðinni skoðað nokkra aðra kosti.

Síðastliðið sumar reyndi Bournemouth að kaupa Davies á fjórar milljónir punda en Preston setti þá tíu milljóna punda verðmiða á hann. Félög í ensku úrvalsdeildinni og þýsku Bundesligunni hafa einnig sýnt leikmanninum áhuga áður.

Hefur farið víða á láni
Davies ólst upp hjá Preston og spilaði sinn fyrsta leik með aðalliðinu þegar hann var 17 ára. Davies hefur síðan þá farið á láni til York City, Tranmere Rovers, Southport, Newport County og Fleetwood Town en undanfarin fjögur tímabil hefur hann fest sig í sessi í vörninni hjá Preston.

„Fyrir minna en tvær milljónir punda þá er þetta algjör stuldur. Liverpool getur selt hann fyrir fimmfalt hærri upphæð. Hann er tíu milljóna punda varnarmaður," sagði Neil Mellor, fyrrum framherji Liverpool, en hann æfði á sínum tíma með Davies hjá Preston.

„Ég er vongóður um að hann geti gripið tækifærið. Eina áhyggjuefni mitt er hvort að hann eigi virkilega heima í ensku úrvalsdeildinni. Hann er þögull og feiminn strákur. Ég veit að hann er nægilega góður en ég veit ekki hvort að hann hafi nægilega mikla trú á sjálfum sér."

Davies, sem varð faðir í fyrsta sinn í desember, er örvfættur en hann hefur líka spilað sem vinstri bakvörður á ferlinum. Davies þykir öflugur í loftinu og með góðan leikskilning auk þess sem hann þykir góður í að spila út úr vörninni. Þá hafa forráðamenn Liverpool hrifist af karakter hans. Hvort Davies nái að spila marga leiki hjá Liverpool verður að koma í ljós en þetta óvænta tækifæri er eitthvað sem hann mun reyna að nýta sem best.
Athugasemdir
banner
banner