Benoný Breki Andrésson kynnti sig inn með stæl hjá Stockport County í dag er hann skoraði tvö mörk og tryggði liðinu 2-1 sigur á Blackpool í ensku C-deildinni í dag.
Framherjinn kom til Stockport frá KR eftir að hafa verið markahæstur í Bestu deildinni á síðustu leiktíð og um leið bætt markametið.
Hann hefur verið að fá mínútur hér og þar en loks greip hann tækifærið í dag. Hann kom inn af bekknum í síðari hálfleik í stöðunni 1-0 fyrir Blackpool og skoraði mörkin tvö sem héldu Stockport inn í baráttunni.
„Ótrúleg tilfinning. Fyrri hálfleikurinn var ekki sá besti en seinni var mjög góður og hvernig við komum til baka og náðum að halda þessu út,“ sagði Benoný við Sky.
Þjálfararnir vildu að Benoný og hinir varamennirnir myndu breyta leiknum sem þeir svo sannarlega gerðu.
„Eins og alltaf vildu þeir að varamennirnir myndu breyta leiknum og mér fannst við gera það.“
„Að klára færi er einn af styrkleikum mínum og ná að gera það í leiknum er enn betra. Ég er mjög ánægður með þetta.“
Benoný var ekki að gera ráð fyrir mörgum mínútum á þessari leiktíð, heldur var þetta meira að venjast umhverfinu og deildinni.
„Ég bjóst kannski við að fá margar mínútur á fyrsta tímabili. Meira bara að venjast þessu, en að fá seinni hálfleikinn og enn betra að skora þessi tvö mörk.“
Stuðningsmenn Stockport tóku víkingaklappið þekkta sem Benoný var auðvitað í skýjunum með.
„Ég elska það. Þetta er séríslenskt og gert með landsliðinu. Mér líður bara enn meira heima að þetta sé gert hérna.“
Benoný stefnir á byrjunarliðssæti en skilur vel ef stjórinn vill ekki hreyfa við liðinu á þessu skriði.
„Auðvitað. Allir leikmenn vilja spila en þetta er undir þjálfaranum komið. Ég skil hann ef hann heldur áfram með sama lið því við erum á góðu róli og þurfum bara að halda áfram.“ .
Markaskorun er einn helsti styrkleiki framherjans og segist hafa tekið hugarfarið frá síðustu leiktíð inn í tímabilið með Stockport og um leið vitað hversu stórt það væri að taka þetta skref.
„Þetta hefur verið þannig hjá mér síðustu fjögur eða fimm ár og þetta einhvern veginn bara varð náttúrulegt hjá mér og ég kom með það hugarfar hingað að halda því áfram eftir tímabilið í fyrra. Þannig er ég bara.“
„Það er það klárlega. Ég fór ungur að árum til Bologna og veit hvernig þetta er, en þetta er auðvitað stærra hér. Ég er eldri núna og er klár í þetta,“ sagði Benoný í lokin.
Take a bow Benoný Breki Andrésson ???????? pic.twitter.com/fk1OtKG6Ul
— The Scarf Bergara Wore Podcast (@CountyPodcast) March 1, 2025
Athugasemdir