Arsenal hyggst gera annað tilboð í Kóreumanninn - Al-Hilal undirbýr tilboð í Bruno Fernandes - Tah undir smásjá Newcastle
   mið 07. maí 2025 14:16
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Stiginn úr skugga bróður síns
Simone Inzaghi fagnar hér með Denzel Dumfries eftir að hafa stýrt Inter í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í annað sinn.
Simone Inzaghi fagnar hér með Denzel Dumfries eftir að hafa stýrt Inter í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í annað sinn.
Mynd: EPA
Pippo Inzaghi var markaskorari af guðs náð.
Pippo Inzaghi var markaskorari af guðs náð.
Mynd: EPA
Simone Inzaghi er orðið eitt þekktasta nafnið í fótboltabransanum eftir að hafa stýrt Inter í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í gær eftir ótrúlegt einvígi við Barcelona.

Þetta er í annað sinn sem Inzaghi stýrir Inter í úrslitaleikinn en þar að auki hefur hann unnið ítölsku úrvalsdeildina einu sinni sem þjálfari liðsins og bikarkeppnina tvisvar.

Í dag er í raun hægt að færa rök fyrir því að hann sé orðinn stærra nafn en bróðir sinn í fyrsta sinn.

Simone var ágætis leikmaður sem spilaði lengst af með Lazio á sínum ferli. Hann lék þrjá landsleiki fyrir Ítalíu en hann féll verulega í skuggann á bróður sínum Filippo, sem var oftast kallaður Pippo. Eldri bróðirinn Pippo er goðsögn í ítölskum fótbolta þar sem hann raðaði inn mörkum fyrir Juventus, AC Milan og ítalska landsliðið. Hann var á sínum tíma einn besti sóknarmaður í heimi.

En Pippo er ekkert meira en bara fínn þjálfari. Hann kom Pisa upp í ítölsku úrvalsdeildina á dögunum og hefur hann stýrt fjöldamörgum liðum á síðustu árum. Hann hefur getið af sér gott orð við það að koma liðum upp um deild.

Simone hefur náð mögnuðum árangri með bæði Lazio og Inter, og er við topp fótboltans í dag. Pippo var markaskorari af guðs náð en Simone var fyrirliðinn þegar þeir spiluðu í unglingaliðum saman. Hann var alltaf með fótboltaheilann og hefur sýnt það síðustu ár í þjálfun. Hann skákaði ótrúlegu liði Barcelona í gær. Það eru afar fáir sem geta það og hann er einn þeirra.

Þegar þeir voru báðir að spila, þá var Simone fastur í skugga Pippo en núna hefur það breyst og snúist við. Simone er sá sem allir eru að tala um.
Athugasemdir
banner