Arsenal hyggst gera annað tilboð í Kóreumanninn - Al-Hilal undirbýr tilboð í Bruno Fernandes - Tah undir smásjá Newcastle
   mið 07. maí 2025 16:49
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Vigdís Lilja: Aðalmarkmiðið að ná áttunda titlinum í röð
Kvenaboltinn
Mynd: Anderlecht
Mynd: Anderlecht
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir skoraði um síðustu helgi sitt þriðja mark fyrir Anderlecht þegar liðið vann Standard Liege í úrslitakeppni belgísku deildarinnar. Leikurinn endaði 2-0, Vigdís Lilja skoraði fyrra mark liðsins á 11. mínútu leiksins.

Anderlecht mætti Standard tvisvar sinnum í röð og skoraði Vigdís í báðum leikjunum. Hún hefur alls leikið tíu leiki fyrir liðið, átta sinnum verið í byrjunarliðinu, eftir að hafa verið keypt frá Íslandsmeisturum Breiðabliks í janúar.

Anderlecht er á toppi deildarinnar ásamt Leuven þegar tvær umferðir eru eftir, en Anderlechte er með mun betri markatölu. Vigdís var til viðtals eftir síðasta leik.

„Ég var mjög ánægð með frammistöðu mína í dag, ég lagði mikið á mig og hef gert það síðustu vikur. Ég er mjög stolt af liðinu. Það var gott að byrja leikinn á marki snemma og ná sjálfstraustinu upp. Ég hefði kannski átt að skora þrjú mörk, en þetta var nóg í dag," sagði Vigdís Lilja.

„Það hefur tekið smá tíma að aðlagast en mér finnst þetta hafa gengið vel að undanförnu. Það er mjög mikilvægt fyrir mig og liðið að stíga upp og klára þessa úrslitakeppni. Aðalmarkmiðið er að ná áttunda titlinum í röð og ég held að við munum gera það."

„Heima á Íslandi var ég í toppliði og við vorum alltaf að berjast um titlana. Það er gott að halda því áfram hér,"
sagði framherjinn.

Næsti leikur liðsins er Anderlecht er heimaleikur gegn Láru Kristínu Pedersen og stöllum hennar í Club Brugge á laugardaginn. Í lokaumferðinni mætir svo liðið Leuven. Landsliðskonan Dilja Ýr Zomers er leikmaður Leuven en hefur ekki getað spilað síðan í desember vegna meiðsla.

Eins og Vigdís nefndi þá hefur liðið orðið meistari sjö sinnum í röð og getur landað sínum áttunda meistaratitli í röð seinna í þessum mánuði.
Athugasemdir
banner
banner