Arsenal leggur fram tilboð - Schick til Englands - Emi á útleið og fer Inzaghi til Sádi?
   mið 07. maí 2025 19:30
Brynjar Ingi Erluson
Leeds hefur áhuga á Beto
Mynd: EPA
Ensku B-deildarmeistararnir í Leeds hafa verulegan áhuga á því að kaupa portúgalska framherjann Beto frá Everton í sumar en þetta kemur fram á Sky Sports.

Metnaðurinn er mikill hjá Leeds í að halda sætinu í úrvalsdeildinni og er talið að félagið ætli sér að eyða meira en 100 milljónum punda í nýja leikmenn í sumar.

Beto, sem er 27 ára gamall, hefur verið eitt helsta vopn Everton á tímabilinu og skorað 7 mörk, en Leedsarar eru meðvitaðir um að kaup á honum myndi reyna vel á veskið.

Framherjinn kom til Everton frá Udinese fyrir 20 milljónir punda fyrir tveimur árum og á hann tvö ár eftir af samningi sínum, en ekki er ljóst hvort David Moyes vilji halda honum áfram eða ekki.

Það má gera ráð fyrir miklum breytingum á hópnum hjá Everton og gæti Leeds reynt að nýta sér það með því að leggja fram tilboð í Beto, en samkvæmt Sky setur Leeds alla einbeitingu á að styrkja hryggjarsúluna í liðinu.

Talið er að félagið muni vilja að minnsta kosti fjóra leikmenn og er tilbúið að greiða 30 milljónir punda fyrir hvern leikmann.

Leeds er með það í forgangi að sækja markvörð, miðvörð, miðjumann og sóknarmann, en það væri einnig til í tvo nýja bakverði og hægri kantmann.

Eitt er víst og það er að nýliðarnir verða mjög virkir á markaðnum í sumar.
Athugasemdir