Arsenal hyggst gera annað tilboð í Kóreumanninn - Al-Hilal undirbýr tilboð í Bruno Fernandes - Tah undir smásjá Newcastle
   mið 07. maí 2025 09:30
Elvar Geir Magnússon
Trump: HM getur orðið hvatning fyrir Rússa að binda enda á stríðið
Donald Trump heldur HM á næsta ári.
Donald Trump heldur HM á næsta ári.
Mynd: EPA
JD Vance og Donald Trump með HM verðlaunabikarinn milli sín.
JD Vance og Donald Trump með HM verðlaunabikarinn milli sín.
Mynd: EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að tækifæri fyrir Rússland til að spila á HM 2026 gæti orðið hvatning fyrir þjóðina til að binda enda á stríðið í Úkraínu.

Rússnesk lið hafa verið í banni frá alþjóðlegum keppnum hjá FIFA og UEFA síðan Rússar réðust inn í Úkraínu 2022.

Eins og staðan er núna mun Rússland ekki spila á HM 2026 en mótið fer að mestu fram í Bandaríkjunum en einnig í Kanada og Mexíkó.

Trump hefur talað um að hann muni koma á friði í Úkraínu en hann var ekki meðvitaður um að Rússar ættu ekki taka þátt í HM þegar hann sat við hlið forseta FIFA, Gianni Infantino, á kynningarfundi fyrir mótið.

„Ég vissi það ekki. Er það rétt?" spurði Trump.

„Það er rétt," svaraði Infantino. „Þeir eru í banni sem stendur en við vonum að eitthvað gerist og friður komist á svo Rússland muni fá að taka þátt aftur."

Trump sagði þá: „Það er mögulegt. Heyrðu, það gæti orðið hvatning fyrir þá, er það ekki? Við viljum fá þá til að hætta. Þúsundir ungmenna látast í hverri viku. Þetta er ótrúlegt."

Trump sagði að Infantino væri „stjórinn" þegar kæmi að ákvörðun um hvort Rússar fengju að taka þátt og sagðist sjálfur ekki hafa neitt að segja um það.

Gestir þurfa að fara heim eftir HM
Varaforsetinn JD Vance var einnig á fundinum og segir tilhlökkun í Bandaríkjunum að taka á móti stuðningsmönnum frá öllum heimshornum.

„Við munum fá gesti, líklega frá um 100 löndum. Við viljum að þeir komi. Við viljum að þeir gleðjist og fagni og horfi á leikina. En þegar mótið er búið þá þurfa þeir að fara heim," segir Vance en búið er að herða innflytjendastefnu Bandaríkjanna undir stjórn Trump, eins og frægt er.


Athugasemdir
banner