Arsenal hyggst gera annað tilboð í Kóreumanninn - Al-Hilal undirbýr tilboð í Bruno Fernandes - Tah undir smásjá Newcastle
   mið 07. maí 2025 14:30
Elvar Geir Magnússon
Amorim: Versta lið sögunnar en getum samt orðið Evrópumeistarar
Rúben Amorim.
Rúben Amorim.
Mynd: EPA
Bruno Fernandes.
Bruno Fernandes.
Mynd: EPA
Það ætti að vera formsatriði fyrir Manchester United að komast í úrslitaleik Evrópudeildarinnar. Liðið leikur seinni leik sinn gegn Athletic Bilbao í undanúrslitum á Old Trafford annað kvöld, eftir að hafa unnið 3-0 sigur í fyrri leiknum.

„Ef við horfum á tímabil okkar þá er allt mögulegt. Við verðum að skilja það. Eitt mark getur breytt öllu, hvernig andi leiksins er. Við sáum það fyrir viku síðan. Við verðum að berjast fyrir sigri á morgun og hugsa ekki um úrslitin í fyrri leiknum," segir Amorim.

Amorim talaði um að þetta væri versta tímabil Manchester United í ensku úrvalsdeildinni í sögu Manchester United þegar horft er til úrslita síðustu 50 ára.

„Í lok tímabilsins getum við staðið uppi sem versta lið Manchester United í sögunni en samt Evrópumeistarar. Við vitum að þetta tímabil hefur verið mikil vonbrigði fyrir alla og það mun ekkert breyta því."

Bruno ekki til sölu
Fyrirliði Manchester United, Bruno Fernandes, gæti verið skotmarkið hjá Al Hilal í Sádi-Arabíu þetta sumarið. United hefur hinsvegar engan áhuga á því að selja miðjumanninn.

„Það er auðvelt að sjá mikilvægi Bruno, ekki bara með tölfræðinni heldur hvernig hann spilar og hvað hann hefur gert á árunum sem hann hefur verið hérna," segir Amorim.

„Hann er toppleikmaður. Hann er leiðtogi, hann er fyrirliðinn okkar. Hann er mjög mikilvægur. Eðlilega eru mörg félög sem vilja hafa Bruno eða (Alejandro) Garnacho en við viljum halda okkar bestu leikmönnum. Bruno er einn af bestu leikmönnum heims í sinni stöðu. Okkar afstaða hefur ekki breyst. Við viljum halda Bruno hérna."

Ef Manchester United vinnur Evrópudeildina mun Manchester United fá Meistaradeildarsæti.

„Ég skil þá sem segja að Meistaradeildin eigi bara að vera fyrir bestu liðin í deildunum. En reglurnar gefa liðum tækifæri á að komast í keppnina í gegnum Evrópudeildina og við reynum að nýta okkur það," segir Amorim.
Athugasemdir
banner
banner