
„Þetta var mikill vinnusigur og við vorum vissulega mikið í vörn en það var eitthvað sem við gerðum ráð fyrir,“ sagði Kjartan Stefánsson, stoltur þjálfari Fylkis, eftir ótrúlegan 1-0 sigur á ríkjandi bikarmeisturum Breiðabliks í 16-liða úrslitum bikarsins.
Lestu um leikinn: Fylkir 1 - 0 Breiðablik
Það var mikil bæting á varnarleik Fylkis frá undanförnum leikjum en Kjartan ákvað að stilla upp í fjögurra manna vörn í stað fimm manna. Liðið virkaði þéttara fyrir vikið.
„Við höfum verið að detta svolítið úr stöðu varnarlega en það er líka af því að varnarmennirnir eru að sækja. Þar liggur kannski munurinn,“ sagði Kjartan og bætti við að það hefði mögulega hjálpað Fylki að geta einbeitt sér að varnarleiknum í dag.
Fylkir skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik en fram að markinu hafði Fylkisliðið varla farið yfir miðju og það var því afar óvænt þegar Kristín Þóra kom Fylki yfir.
„Við eigum oft góða spretti með boltann í stutta spilinu og vissum að við myndum fá 2-3 færi. Við ætluðum að nýta okkur það og það gekk eftir.“
„Stundum er það bara þannig að maður á að vinna leik eða hann tapast, það var svolítið þannig hjá Blikum í dag. Þær fengu færin en Cecilía var geggjuð í markinu og tók ansi mörg færi. Hún er maður leiksins í mínu liði,“ sagði Kjartan en markvörðurinn ungi var frábær á milli stanganna hjá Árbæingum í dag.
Þjálfarinn var vissulega hæstánægður með úrslitin en talaði líka um að liðið sitt hefði náð ákveðnum markmiðum sem munu hjálpa þeim í framhaldinu.
„Við vorum að sigra fullt af litlum markmiðum. Það bættist ofan á það að vinna leikinn en ef við hefðum misst hann niður í jafntefli eða jafnvel tap þá náðum við fullt af litlum markmiðum sem ég er gríðarlega sáttur við.“
Kjartan gantaðist svo með það að hann hefði viljað gott lið síðast og dregið Breiðablik, annað af tveimur bestu liðum landsins.
Aðspurður um óskamótherja í 8-liða úrslitunum svaraði hann léttur:
„Við viljum fá gott lið. Þannig verður Fylkir betra lið. Ef ég fæ að draga þá dreg ég væntanlega Val.“
Hægt er að horfa á allt viðtalið við Kjartan í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir