![Icelandair](/images/icelandair2_150x150px.png)
Spænska félaginu Real Betis tókst ekki að næla í varnarmanninn Hólmar Örn Eyjólfsson á lokadegi félagaskiptagluggans í gær. Hólmar spilar með Rosenborg en Spánverjarnir náðu ekki samkomulagi við norska félagið um kaupverð á Íslendingnum.
„Ég fékk símtal og frétti af áhuga frá þeim en því miður komust Betis og Rosenborg ekki að samkomulagi. Það varð ekkert úr því. Þetta hefði verið stórt tækifæri," segir Hólmar sem var með símann á lofti í gær.
„Ég held að ég hafi aldrei verið meira í símanum."
„Það eru ekki margir sem fara úr norsku deildinni beint í La Liga og það var svekkjandi að þetta gekk ekki í gegn. En maður þarf að halda áfram. Vonandi kemur eitthvað fínt í næstu gluggum."
Það er ekki ólíklegt að Real Betis muni áfram beina augum sínum að Hólmari. „Ég vona það," segir Hólmar.
Fótbolti.net ræddi við Hólmar í Frankfurt í dag þar sem hann er ásamt íslenska landsliðshópnum að búa sig undir fyrsta leik í undankeppni HM næsta mánudag. Þar leikur Ísland við Úkraínu ytra.
Sjáðu viðtalið í heild í sjónvarpinu hér að ofan en þar er Hólmar, sem er 26 ára, meðal annars spurður út í svekkelsið að hafa ekki verið valinn í landsliðshópinn fyrir EM.
Athugasemdir