Félagaskipti enska varnarmannsins Marc Guehi frá Crystal Palace til Liverpool eru í uppnámi. Þetta segir hinn afar áreiðanlegi Paul Joyce á X og tekur Fabrizio Romano undir.
Palace samþykkti 35 milljóna punda tilboð Liverpool í Guehi fyrr í dag og fór hann í læknisskoðun í Lundúnum.
Það er hins vegar komið babb í bátinn því eins og við greindum frá hér fyrr í dag þá þurfti varnarmannakapallinn að ganga upp hjá báðum félögum.
Igor Julio, varnarmaður Brighton, fór í læknisskoðun hjá Palace í dag, en hann var hugsaður sem arftaki Guehi. West Ham kom inn í myndina á elleftu stundu og hefur Brasilíumaðurinn nú hætt við að fara til Palace og er á leið til West Ham.
Guehi, sem er 25 ára gamall, hafði lokið læknisskoðun sinni hjá Liverpool þegar þessar fréttir bárust.
Liverpool heldur nú í vonina um að Palace takist að sækja varnarmann áður en glugginn lokar. Ef það tekst ekki mun Guehi líklega ekki fara til Liverpool.
Athugasemdir