Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
banner
   mán 01. nóvember 2021 15:10
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Tvær ástæður fyrir ákvörðun Hólmars sem tekin var í maí
Icelandair
Hólmar Örn í baráttunni við Jack Grealish
Hólmar Örn í baráttunni við Jack Grealish
Mynd: Getty Images
Á landsliðsæfingu í mars.
Á landsliðsæfingu í mars.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik gegn Sviss árið 2018.
Í leik gegn Sviss árið 2018.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í lok ágúst greindi landsliðsþjálfarinn Arnar Þór Viðarsson frá því að Hólmar Örn Eyjólfsson gæfi ekki lengur kost á sér í landsliðið. Arnar var sérstaklega spurður út í Hólmar í viðtali hér á Fótbolti.net eftir að landsliðshópurinn fyrir septemberverkefni A-landsliðsins var tilkynntur.

Hólmar er 31 árs og hefur verið viðloðinn A-landsliðið í um áratug. Hann á að baki nítján A-landsleiki og skoraði í þeim tvö mörk. Á sínum tíma lék hann 27 leiki með U21 árs landsliðinu. Lokaleikur Hólmars með landsliðinu var gegn Englandi í Þjóðadeildinni fyrir ári síðan.

Sjá einnig:
Landsliðsþjálfarinn um Hólmar
Umræða um ákvörðun Hólmars
Fjölskylda Hólmars flutt til Íslands - „Þarf að hugsa þetta vel"

Fjölskyldan og fá tækifæri
Fótbolti.net ræddi við Hólmar í dag og spurði hann út í landsliðið. Hvenær tókstu þá ákvörðun að þú gæfir ekki lengur kost á þér í landsliðið?

„Það var í maí í rauninni, eftir marsverkefnið. Þá kom í ljós að fjölskyldan væri að flytja heim og þá myndi maður ekki sjá þau mikið. Landsleikjahlé væru því tækifæri til að fara heim og hitta fjölskylduna. Ég var búinn að vera í hópnum í einhver tíu ár og aldrei almennilega fengið sénsinn. Það var aðeins annað upp á teningnum í maí en er núna. Ég sá fram á það þá að það væri ekkert að koma að sénsinum. Mér fannst betra fyrir alla að fá einhvern ungan inn," sagði Hólmar.

„Brynjar Ingi [Bjarnason] er búinn að gera gríðarlega vel síðan hann kom inn."

Þeir sem spiluðu voru að gera ágætis hluti
Ræddi Arnar eitthvað við þig í síðasta glugga þegar Jón Guðni Fjóluson meiddist?

„Ég og Arnar spjölluðum lengi saman þegar ég tók þessa ákvörðun og það er alveg klárt mín megin að ég er bara hættur."

Gerðist eitthvað í verkefninu í mars? „Nei, það gerðist alls ekkert þannig. Maður var bara búinn að vera lengi í þessu án þess að fá alvöru séns og auðvitað skilur maður það líka. Þeir sem spiluðu voru að gera ágætis hluti, þeir sem voru fyrir framan mann. Það er bara eins og það er líka."

„Auðvitað var það alltaf draumurinn þegar maður var lítill að spila fyrir landsliðið. Ég gerði það nokkrum sinnum en svo verður maður eldri og skrokkurinn fer aðeins að láta vita. Þótt maður sé ekki að spila alla þessa leiki þá eru þetta mikil ferðalög og maður sá fram á að geta hlíft skrokknum í þessum gluggum. Maður gæti því gert betur fyrir félagsliðið sitt,"
sagði Hólmar að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner