'Hver einasti dagur var lærdómsríkur og mér fannst ég ekki síður læra af leikmönnum en þjálfurunum í kringum mig'
'Þegar maður eyðir öllum deginum á skrifstofu með tveimur öðrum er ómetanlegt að finna slíkan skilning á erfiðum dögum'
Í nóvember 2023 var Eiður Benedikt Eiríksson ráðinn til Breiðabliks og kom þar inn sem aðstoðarþjálfari Halldórs Árnasonar. Eiður hafði þá verið í rúmt ár hjá KA þar sem hann var aðstoðarþjálfari. Þar áður hafði Eiður verið í teymi með Pétri Péturssyni hjá Val þar sem þeir stýrðu besta kvennaliði landsins. Hann hafði líka verið þjálfari Þróttar Vogum í um átta mánuði.
Breiðablik fór á magnað skrið seinni hluta tímabilsins 2024 og varð Íslandsmeistari eftir sigur á Víkingum í úrslitaleik. Eiður ræddi um tímann hjá Breiðabliki.
Breiðablik fór á magnað skrið seinni hluta tímabilsins 2024 og varð Íslandsmeistari eftir sigur á Víkingum í úrslitaleik. Eiður ræddi um tímann hjá Breiðabliki.
„Tíminn hjá Blikum var frábær. Dóri setti saman einstakt þjálfarateymi og það var mikill heiður að vera hluti af því. Mér leið strax eins og ég væri kominn í eitthvað stærra en ég hafði áður upplifað."
„Leikmannahópurinn er algjörlega frábær og að mörgu leyti einstakur. Hver einasti dagur var lærdómsríkur og mér fannst ég ekki síður læra af leikmönnum en þjálfurunum í kringum mig," segir Eiður. Hann var aðstoðarþjálfari Breiðabliks ásamt Eyjólfi Héðinssyni tímabilið 2024 og svo tók Arnór Sveinn Aðalsteinsson við starfi Eyjólfs. Haraldur Björnsson er markmannsþjálfari Breiðabliks og Helgi Jónas Guðfinnsson styrktarþjálfari.
Ótrúlega þakklátur sínum samstarfsmönnum fyrir stuðninginn
Hver var toppurinn á tímanum hjá Blikum?
„Auðvelt væri að nefna Íslandsmeistaratitilinn, aðdragandann að honum, eða þegar við tryggðum okkur sæti í Sambandsdeildinni og alla Evrópuleikina."
„Það sem stendur þó mest upp úr er fólkið, ferðalögin og minningarnar. Á þessum tíma upplifði ég bæði mikla hæðir og djúpa dali í lífinu. Ég er ótrúlega þakklátur Dóra og Eyjó fyrir hvernig þeir studdu mig þegar konan mín veiktist, og Dóra og Arnóri þegar móðir mín lést. Þegar maður eyðir öllum deginum á skrifstofu með tveimur öðrum er ómetanlegt að finna slíkan skilning á erfiðum dögum," segir Eiður sem missti móður sína einungis tveimur dögum fyrir fyrsta leik í Bestu deildinni í vor.
Árangurinn engin tilviljun
Hvernig var að vinna með Halldóri?
„Það er engin tilviljun sá árangur sem Dóri hefur náð. Hann er mjög kröfuharður, bæði á leikmenn og starfsfólk, og undirbúningur skiptir hann miklu máli. Hann er fastur á sinni hugmyndafræði og trúir henni, sem gerir það auðvelt að vinna með honum – þú veist alltaf nákvæmlega hvað hann ætlast til af þér."
Mjög taktískur og mikil nákvæmni á fundum
Hvað lærðir þú helst af honum?
„Mér fannst ég læra mest hvernig hann brýtur tímabilið niður í ár, mánuði, vikur og daga. Hann er mjög taktískur og vinnur markvisst með taktík á hverri einustu æfingu. Fundir þjálfarateymisins voru oft afar lærdómsríkir, sérstaklega þegar teknar voru ákvarðanir um uppsetningu vikunnar út frá þeim andstæðingi sem við vorum að fara að spila við."
„Hann er einnig mjög sterkur í að stýra æfingaálagi yfir tímabilið og leggur mikla áherslu á að liðið nái hámarksframmistöðu á leikdegi. Fundirnir voru alltaf mjög nákvæmir, bæði varðandi greiningu á andstæðingum og leikplan, og leikmenn vissu alltaf nákvæmlega hvað var ætlast til af þeim inni á vellinum."
Hefðu mögulega getað létt meira á hlutunum
„Lærdómurinn sem ég tek með mér úr þessum tíma er þó sá að við sem teymi hefðum mögulega getað létt meira á hlutunum. Æfingarnar voru nær alfarið taktískar, fundirnir oft langir og lítið um frídaga vegna mikils leikjaálags og Evrópuferða. Það sem ég tek út úr því er mikilvægi þess að finna jafnvægi – stytta fundi þegar það á við og brjóta æfingarnar meira upp til að halda ferskleika og orku yfir langt tímabil," segir Eiður sem tók við sem aðstoðarþjálfari Þórs í haust.
Halldór var látinn fara sem þjálfari Breiðabliks í október og starfaði Eiður í stuttan tíma með Ólafi Inga Skúlasyni áður en hann hélt norður til Akureyrar.
Athugasemdir



