„Það má búast við hörkuleik, allir leikir núna eru að fara vera hörkuleikir," sagði Alexandra Jóhannsdóttir við Fótbolta.net fyrir landsliðsæfingu í dag. Framundan er leikur gegn Póllandi í undankeppni EM. Sá leikur fer fram á föstudag á Kópavogsvelli. Eftir helgi mætir liðið svo Þýskalandi ytra.
„Þær eru náttúrulega með ótrúlega góðan framherja, að stoppa hana er mikill þáttur í því að vinna Pólland." Ewa Pajor, leikmaður Wolfsburg, er algjör lykilmaður í liði Póllands og hefur skorað 55 mörk í 70 landsleikjum.
Íslenska liðið spilar aftur á Kópavogsvelli, en það lukkaðist vel í umspilsleiknum gegn Serbíu í síðasta landsliðsverkefni.
„Það leggst vel í mig að vera hér, mér líður vel hér, allavega helmingnum af liðinu líður vel hér," sagði Alexandra og hló. Kópavogsvöllur er auðvitað heimavöllur Breiðabliks og margar í landsliðshópnum hafa spilað með Breiðabliki. „Þetta er eins og að koma heim."
„Mér er alveg sama hvort það er gervigras eða gras. Ég kýs gervigras fram yfir frosið gras, Mér finnst bara fínt að spila á gervigrasi, boltinn rúllar vel og ég held að allar í hópnum hafa spilað á gervigrasi og eru vanar því."
Alexandra var spurð út í umspilið gegn Serbíu sem var síðasta verkefni liðsins. „Ég er ótrúlega ánægð að hafa klárað þetta. Mér fannst fyrri leikurinn ekkert frábær, en mér fannst við gera vel í seinni leiknum þótt hann fór ekki nema 2-1. Við fengum marga sénsa, jú þær skora snemma, en mér fannst þetta fínn leikur hjá okkur svona þegar ég er búin að horfa á hann aftur."
Eftir leikinn við Pólland er svo leikur gegn Þýskalandi. Ísland var líka með Þýskalandi í riðli í Þjóðadeildinni sem spiluð var síðasta haust. „Mér var svo sem alveg sama hvað af þessum topp fjórum liðum við vorum að fara fá."
Heldur þú að við séum á betri stað heldur en þegar við mættum Þjóðverjum síðasta haust?
„Já, ég held að við stelpurnar séu bara spenntar að spila við Þjóðverjana, sýna að við getum spilað ágætis bolta - sama hvort það sé bara að spila vörn og beita skyndisóknum sem virkar vel oft. Ég held að liðið sé betur stemmt en það var," sagði Alexandra.
Hún fer í viðtalinu, sem má sjá í heild sinni í spilaranum efst, yfir stöðu Fiorentina og stöðu sína hjá félaginu.
Athugasemdir