Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 02. júní 2020 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Cellino 'hafnaði 65 milljónum' fyrir Tonali - Er hann að ljúga?
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Massimo Cellino, skrautlegur eigandi Brescia botnliðs Serie A deildarinnar, segir stærstu félög Evrópu hafa áhuga á Sandro Tonali ungum miðjumanni liðsins.

Tonali er gríðarlega efnilegur og hefur verið að gera góða hluti í ítalska boltanum þrátt fyrir hrapalegt gengi liðsins.

„Nasser (Al-Khelaifi, forseti PSG) sendi mér skilaboð í dag en Tonali vill ekki fara til Frakklands. Hann vill fara til Inter eða Juventus," sagði Cellino við Il Corriere dello Sport í gær.

„De Laurentiis (Aurelio, forseti Napoli) bauð 40 milljónir og Fiorentina vill hann líka en framtíð hans er ákveðin. Fyrir Covid bauð Barcelona 65 milljónir og tvo leikmenn í skiptum en ég hafnaði því tilboði.

„Þessa stundina eru engar viðræður í gangi. Það eru tólf leikir eftir af tímabilinu og strákurinn verður að halda haus."


Fjölmiðlar á Spáni efast um sannleika orða Cellino. Þeir segja hann vera að skálda áhuga til að hækka verðmiðann á sínum verðmætasta leikmanni. Mundo Deportivo hefur eftir heimildarmanni sínum innan raða Barca að tilboðið meinta sé uppspuni frá rótum.

Uppspuni eða ekki þá virðist Tonali vera á förum, rétt eins og liðsfélagi hans Mario Balotelli sem hefur verið gagnrýndur fyrir að sleppa því að mæta á æfingar síðustu daga. Cellino sagði við fjölmiðla að hann væri ekki sáttur með hegðun Balotelli, en sóknarmaðurinn svaraði og sagðist bara víst hafa mætt á allar æfingar liðsins.

Ólíklegt er þó að Brescia fái mikið yfir 30 milljónir fyrir Tonali þrátt fyrir stór orð Cellino.
Athugasemdir
banner
banner
banner