Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   sun 02. ágúst 2020 09:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Alfons: Treysti því að landsliðsþjálfararnir horfi hingað
Alfons í leik með Bodø/Glimt.
Alfons í leik með Bodø/Glimt.
Mynd: Håkon Kjøllmoen
Alfons lék með Breiðabliki seinni hluta síðasta tímabils.
Alfons lék með Breiðabliki seinni hluta síðasta tímabils.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfons lék sína fyrstu A-landsleiki í janúar.
Alfons lék sína fyrstu A-landsleiki í janúar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfons Sampsted, leikmaður Bodö/Glimt í norsku Eliteserien, hefur farið vel af stað hjá nýju félagi en hann gekk í raðir Bodö frá sænska félaginu Norrköping eftir síðustu leiktíð.

Bodö er í toppsæti efstu deildar í Noregi og hefur unnið tíu leiki og gert eitt jafntefli, sem kom í liðinni umferð, þegar ellefu umferðum er lokið af deildinni.

Alfons hefur leikið allar mínúturnar í deildinni til þessa. Fréttaritari hafði samband við Alfons út af öðru málefni en tvær flugur voru slegnar í einu höggi og fylgdu nokkrar spurningar, út í tímabil Alfonsar og hans frammistöðu, með.

Sjá einnig:
Hvernig ganga hlutirnir fyrir sig í Danmörku, Noregi og Svíþjóð?

Unnið með hugmyndafræði sem gengur upp
Bodö/Glimt endaði í 2. sæti á síðasta tímabili og endaði fjórtán stigum á eftir Molde, sem nú er í öðru sæti þremur stigum á eftir Bodö. Hefur gengi Bodö komið Alfons á óvart?

„Nei, það kemur ekki á óvart. Við höfum verið að vinna með ákveðna hugmyndafræði sem við fundum frekar snemma að gekk upp. Þegar hún gengur upp er ekkert mál að hafa trú á því að sigur vinnist í hverjum leik," sagði Alfons.

Fann Alfons fljótt að hann kæmi sterklega til greina sem fyrsti kostur í hægri bakvarðarstöðuna?

„Þegar ég kem þá fæ ég þau skilaboð frá þjálfurunum að ég muni fá sama séns og allir aðrir. Ég hef greinilega nýtt hann vel og mér finnst ég smellpassa inn í þetta kerfi sem við spilum. Þannig já, ég fæ fljótlega á tilfinninguna að ég sé kandídat í þessa stöðu."

Treystir því að Hamrén og Freyr fylgist með
Alfons, sem er 22 ára gamall, á að baki tvo A-landsliðsleiki sem báðir komu í janúar á þessu ári. Oft hefur verið rætt að hægri bakvarðarstaðan sé eins konar vandræða staða í íslenska karlalandsliðinu.

Sjá einnig:
Fimm leikmenn sem gera tilkall í landsliðið

Er Alfons farinn að hugsa að hann eigi möguleika í næsta landsliðshóp?

„Þegar ég var með hópnum í janúar þá segja [Erik] Hamrén [landsliðsþjálfari] og Freyr [Alexandersson, aðstoðarþjálfari] að þeir horfi til félagsliðanna. Það er akkúrat það sem ég einbeiti mér að núna og ef ég stend mig vel hér þá treysti ég því að þeir séu allavega að horfa hingað. Ef að þeir hafa trú á því að ég geti komið inn þá er ég klár."

Aldrei borðað jafn mikið
Mikið leikjaálag er á leikmönnum í Noregi, oftast eru þrír leikir á átta dögum. Til dæmis leikið á fimmudag, sunnudag og svo aftur á fimmtudag. Finnst Alfons gaman að spila svona mikið eða er það svolítið erfitt?

„Við vorum fyrst í þrjá til fjóra mánuði þar sem var einungis æft á meðan hlé var á öllum fótbolta. Eftir það er geggjað að komast bara inn í tímabil þar sem maður keppir og keppir og keppir. Ég þurfti aðeins að læra inn á það að taka auka ráðstafanir þegar kemur að endurheimt milli leikja og slíkt."

„Ég held að ég hafi aldrei borðað jafn mikið og síðasta mánuðinn. Maður hólkar í sig daglega. Álagið er öðruvísi, æfingaálagið er lítið sem ekkert og leikjaálagið er mjög mikið. Það er mjög gaman,"
sagði Alfons að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner