Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 02. ágúst 2022 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáin fyrir enska - 9. sæti - „Ekki verið svona spennt í áratugi"
Newcastle
Bruno Guimarães, miðjumaður Newcastle.
Bruno Guimarães, miðjumaður Newcastle.
Mynd: Getty Images
Eddie Howe, stjóri Newcastle.
Eddie Howe, stjóri Newcastle.
Mynd: EPA
Sven Botman var keyptur til Newcastle í sumar.
Sven Botman var keyptur til Newcastle í sumar.
Mynd: Getty Images
Enski landsliðsmarkvörðurinn Nick Pope var keyptur frá Burnley.
Enski landsliðsmarkvörðurinn Nick Pope var keyptur frá Burnley.
Mynd: EPA
Jón Júlíus Karlsson er stuðningsmaður Newcastle.
Jón Júlíus Karlsson er stuðningsmaður Newcastle.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kieran Trippier.
Kieran Trippier.
Mynd: EPA
Amanda Staveley fer fyrir hópnum sem á Newcastle.
Amanda Staveley fer fyrir hópnum sem á Newcastle.
Mynd: Getty Images
Stuðningsfólk Newcastle er spennt fyrir komandi keppnistímabili.
Stuðningsfólk Newcastle er spennt fyrir komandi keppnistímabili.
Mynd: Getty Images
Hvar endar Newcastle á komandi keppnistímabili?
Hvar endar Newcastle á komandi keppnistímabili?
Mynd: EPA
Enska úrvalsdeildin, sem er í miklu uppáhaldi hjá flestum fótboltaunnendum á Íslandi, hefst um næstu helgi. Það er tæp vika í fyrsta leik.

Líkt og síðustu ár, þá munum við kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Við heyrum líka í stuðningsfólki hvers lið og tökum púlsinn fyrir tímabilið sem er framundan.

Næst í röðinni er það Newcastle sem er spáð níunda sæti deildarinnar af okkar fréttafólki.

Um Newcastle: Lífið breyttist hjá stuðningsfólki Newcastle á síðasta ári er hinn níski Mike Ashley hvarf á braut og moldríkir eigendur frá Sádí-Arabíu tóku við eignarhaldi félagsins. Nýir eigendur Newcastle eru gríðarlega umdeildir, meðal annars vegna mannréttindabrota í gegnum árin. En yfirtakan fór samt í gegn. Newcastle eyddi mest allra félaga í Evrópu í janúar og náði að halda sér uppi nokkuð þægilega.

Það hefur rólegt um að vera á leikmannamarkaðnum í sumar, allavega hefur verið rólegra en fólk bjóst við. Peningur er ekki vandamál en félög og umboðsmenn vita það líka, og eru því að biðja um ansi mikið frá Newcastle. Félagið er að reyna að styrkja lið sitt, en er að reyna að sleppa við það að borga alltof, alltof mikið.

Komnir:
Sven Botman frá Lille - 31,9 milljónir punda
Matt Targett frá Aston Villa - 15 milljónir punda
Nick Pope frá Burnley - 10 milljónir punda

Farnir:
Freddie Woodman til Preston - 1 milljón punda
Dwight Gayle til Stoke - óuppgefið kaupverð
Ciaran Clark til Sheffield United - á láni
Jeff Hendrick til Reading - á láni
Isaac Hayden til Norwich - á láni

Lykilmenn: Sven Botman, Bruno Guimarães og Allan Saint-Maximin eru mikilvægir fyrir Newcastle. Botman er miðvörður sem kom til félagsins í sumar en hann var mjög eftirsóttur. Hann hefur leikið afskaplega vel með Lille í Frakklandi síðustu ár. Guimarães er brasilískur miðjumaður sem kom í janúar og er með mikil gæði. Þá er Saint-Maximin leikinn kantmaður se hefur verið besti leikmaður Newcastle síðustu ár.




Alan Shearer var minn maður
Jón Júlíus Karlsson, framkvæmdastjóri Grindavíkur, er stuðningsmaður Newcastle. Við fengum hann til að svara nokkrum spurningum.

Ég byrjaði að halda með Newcastle af því að... Alan Shearer var minn maður í barnæsku og þegar hann færði sig frá Blackburn yfir til Newcastle þá færði ég mig með honum. Sé ekki eftir þeirri ákvörðun í dag þó auðvitað hafi ekki alltaf verið gaman að vera stuðningsmaður Newcastle á síðustu áratugum.

Hvernig fannst þér síðasta tímabil og hvernig líst þér á tímabilið sem framundan er? Síðasta tímabil fór auðvitað ekki vel af stað en eftir áramót vorum við eitt af bestu liðunum í deildinni og stóðum okkur gíðarlega vel. Þetta leit ekki vel út en eftir yfirtökuna var eins og þungu fargi hafi verið lyft af félaginu. Ég er mjög ánægður með hvernig félagið hefur vaxið eftir yfirtökuna, þá leikmenn sem hafa komið inn og eins framþróunina á fótbolta liðsins. Ég held að fótboltalega séð munum við taka miklum framförum í vetur. Við stuðningsfólk Newcastle höfum ekki verið svona spennt fyrir nýju tímabili í áratugi. Ég vona að við gerum atlögu að Evrópusæti og reynum að fara langt í báðum bikarkeppnum.

Hefur þú farið út til Englands að sjá þitt lið spila? Ef svo er, hvernig var það? Það er nú ákveðin skömm að segja frá því en ég hef aldrei farið í leik á St. James' Park. Ég er búinn að fara á nokkra leiki í ensku úrvalsdeildinni en aldrei á St. James'. Áhugi minn að fara á leik á síðustu árum þegar liðið var undir eigu Mike Ashley var því miður ekki til staðar. Ég féll eiginlega aftur fyrir félaginu í vetur og get ekki beðið eftir að fara norður á St. James' á þessu tímabili.

Uppáhalds leikmaðurinn í liðinu í dag? Sá leikmaður sem er í mestu dálæti hjá mér í dag er Kieran Trippier. Hann mætti með gríðarlega orku inn í klúbbinn í janúar og var sá leikmaður sem hafði líklega mest áhrif á gengi liðsins – þrátt fyrir að missa af stórum hluta vorsins vegna meiðsla. Þetta er mikill leiðtogi inn á vellinum og auðvitað frábær bakvörður. Hann gerir leikmennina í kringum sig betri og það er hrein unun að hafa svona leikmann loksins í Newcastle.

Leikmaður sem þú myndir vilja losna við? Ég held að flestir stuðningsmenn Newcastle séu sammála um að Jamaal Lascelles sé ekki nægilega afgerandi miðvörður til framtíðar. Mér finnst hann gera of mörg mistök sem kosta mörk og það sé hægt að fá betri miðvörð við hliðina á Sven Botman. Hann hefur samt verið góður þegn fyrir félagið á undanförnum árum og verið leiðtogi liðsins í gegnum basl síðustu ára. Klúbburinn er nú þegar búinn að losa Jeff Hendrick, Dwight Gayle og Ciaran Clark sem eru ekkert annað en Championship leikmenn.

Leikmaður í liðinu sem fólk á að fylgjast sérstaklega með í vetur? Ég held að Bruno Guimarães sé að fara að taka yfir ensku úrvalsdeildina í vetur. Hann spilaði ótrúlega vel eftir komuna til félagsins í janúar og hefur litið afar vel út á undirbúningstímabilinu. Það er bara að vona að Bruno sleppi vel frá meiðslum í vetur. Leikstíllinn hjá honum hentar enska boltanum vel. Það er eiginlega hálf ótrúlegt að leikmaður með þessi gæði sé að spila fyrir mína menn. Hann gæti hæglega spilað með bestu félagsliðum heims.

Ef ég mætti velja einn leikmann úr öðru liði í ensku úrvalsdeildinni myndi ég velja... Kevin De Bruyne er besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar. Yfirburðarmaður á sínum degi.

Ertu ánægður með knattspyrnustjórann? Ég er mjög ánægður með Eddie Howe. Ég var einmitt að vona að hann fengi kallið þegar yfirtakan fór í gegn. Hann er eiginlega fullkominn í þetta verkefni. Eddie hefur verið mjög klókur á markaðnum en vill einnig spila fótbolta sem ætti að gleðja okkur stuðningsmenn. Hann kemur mjög vel fyrir og ég myndi telja að hann sé mjög vinsæll á meðal stuðningsmanna félagsins. Mér þótti mikið til hans koma þegar hann var hjá Bournemonth þannig að það gladdi mig að Eddie skyldi hreppa starfið.

Fréttirnar um yfirtökuna í fyrra voru risastórar. Hvað finnst þér persónulega um hana? Yfirtakan í fyrra gladdi okkur stuðningsmenn mikið. Félagið var búið að vera í ofbeldissambandi með Mike Ashley í ára raðir. Stuðningsmönnum líður eins og að þeir hafi fengið klúbbinn sinn aftur. Það er frábær hópur að stýra klúbbnum; hjónin Amanda Staveley og Mehrdad Ghodoussi, ásamt Reuben bræðrunum. Við gerum okkur fulla grein fyrir að peningarnir eru að koma frá Sádí-Arabíu þar sem mannréttindi eru ekki í hávegðum höfð. Ég vona að eignarhald þeirra á Newcastle verði til þess að kastljósið verði enn meira á Saudi Arabíu í kjölfarið að hægt sé að færa stjórnarhætti þar í landi meira í átt við okkar vestrænu gildi.

Í hvaða sæti mun Newcastle enda á tímabilinu? Newcastle endar í sjöunda sæti og fer í úrslit í annarri bikarkeppninni. Newcastle verður í baráttunni um Evrópusæti.




Hér fyrir neðan má svo sjá hvernig spá fréttafólks Fótbolta.net lítur út.

Þau sem spáðu: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Aksentije Milisic, Arnar Laufdal Arnarsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Jóhann Þór Hólmgrímsson, Ívan Guðjón Baldursson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.
.

Spáin:
1.
2.
3.
4.
5.
6.
7.
8.
9. Newcastle, 115 stig
10. Aston Villa, 99 stig
11. Wolves, 96 stig
12. Brighton, 94 stig
13. Crystal Palace, 90 stig
14. Everton, 61 stig
15. Southampton, 55 stig
16. Leeds, 53 stig
17. Fulham, 43 stig
18. Brentford, 42 stig
19. Nottingham Forest, 35 stig
20. Bournemouth, 11 stig
Athugasemdir
banner
banner