Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mið 31. júlí 2024 11:46
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Ástbjörn og Gyrðir á förum frá FH en ólíklegt að það verði í glugganum
Ástbjörn og Gyrðir fagna marki FH gegn Breiðabliki.
Ástbjörn og Gyrðir fagna marki FH gegn Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Davíð að víla og díla.
Davíð að víla og díla.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ástbjörn Þórðarson og Gyrðir Hrafn Guðbrandsson verða ekki leikmenn FH á næsta tímabili. Það staðfestir Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður fótboltamála hjá FH, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Þeir eru uppaldir í KR og fjallaði Vísir um það í upphafi vikunnar að bæði Ástbjörn og Gyrðir væru búnir að semja við KR um að ganga í raðir félagsins eftir tímabilinu lýkur. Þeir geta gert það þar sem samningur þeirra við FH rennur út eftir tímabilið.

Slúðrað hefur verið um að KR sé að reyna fá Ástbjörn og Gyrði í glugganum og möguleiki sé á því að KR vilji láta Kristján Flóka Finnbogason í skiptum fyrir tvíeykið.

Davíð var spurður hvort FH væri í viðræðum við KR í dag.

„Það hafa alveg átt sér stað samtöl okkar á milli. Við erum með tvo leikmenn sem eru að renna út á samningi og munu ekki endursemja við okkur. KR hefur áhuga á því að fá þá til sín. Það er ekkert komið neitt lengra en það og ég á erfitt með að sjá að það muni eitthvað gerast í þeim málum áður en glugginn lokar. Þetta eru okkar leikmenn í dag og hafa staðið sig hrikalega vel fyrir okkur. Þó svo að þeir hafi ákveðið að fara eitthvert annað eftir tímabilið, þá veit ég að þessir leikmenn munu gefa allt í þetta verkefni sem við erum í út tímabilið. Það þarf eitthvað mikið að gerast svo við látum þá af hendi á þessum tímapunkti."

Grétar Snær Gunnarsson er ansi fjölhæfur leikmaður sem getur leyst nokkur hlutverk inn á vellinum. Hann meiddist um helgina og verður eitthvað frá. Sú staðreynd að hann er meiddur, breytir hún eitthvað stöðu hinna leikmannanna tveggja?

„Það breytir ekki stöðunni hjá okkur varðandi þessa leikmenn. Þetta er auðvitað mjög leiðinlegt fyrir Grétar að lenda í þessu, búinn að vera spila vel. En það breytir ekki stöðunni hvernig við sjáum þessa tvo leikmenn," segir Davíð.
Athugasemdir
banner
banner