Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 02. október 2020 17:30
Magnús Már Einarsson
Álitsgjafar spá í stórleik Vals og Breiðabliks
Úr fyrri leik liðanna sem Breiðablik vann 4-0.
Úr fyrri leik liðanna sem Breiðablik vann 4-0.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valur og Breiðabliks mætast í toppslag í Pepsi Max-deild kvenna á Kópavogsvelli klukkan 17:00 á Origo-vellinum á Hlíðarenda á morgun. Um er að ræða hálfgerðan úrslitaleik um Íslandsmeistaratitiilinn.

Fótbolti.net fékk nokkra álitsgjafa til að spá í spilin.



Mist Rúnarsdóttir, Heimavöllurinn
Valur 1 - 3 Breiðablik
Jíhaaa! Eftir langt, strangt og stórfurðulegt tímabil er mótið loks að styttast í annan endann og framundan er leikurinn mikilvægi, úrslitaleikurinn, eins og flest okkar vilja meina. Eins og undanfarin ár munu minnstu smáatriði skera á milli toppliðanna tveggja. Mín tilfinning er að við fáum þrususkemmtilegan fótboltaleik. Valskonur verða vissulega að vinna en ég held að það sé ekkert verra fyrir þær. Það nálgast hvort sem er enginn fótboltaleik og ætlar að spila upp á jafntefli, eða hvað? Ég held að Blikar komist yfir um miðjan fyrri hálfleik en Valskonur jafni fyrir hálfleik. Staðan 1-1, bæði mörkin eftir föst leikatriði og Alexandra og Mist komnar á blað. Í síðari hálfleik fær Adda annað bréf og Valsliðið fer hærra á völlinn. Þær verða líklegri og eiga m.a. tvo skot í tréverkið en það verða Blikar sem setja mark númer tvö eftir hættulega skyndisókn. Karólína leggur það upp fyrir Sveindísi. Valsarar hóta jöfnunarmarki en fjórða mark leiksins skora Blikar í uppbótartíma. Rakel Hönnudóttir skallar þá hornspyrnu Öglu Maríu í netið og gestirnir taka stigin þrjú. Ég hvet fólk til að mæta og fylla öll box á Origo-vellinum. Þau sem ekki komast að taka leikinn á Stöð 2 Sport og við höfum öll nóg að ræða á kaffistofunni eftir helgi.

Sandra María Jessen, Bayer Leverkusen
Valur 1 - 3 Breiðablik
Þá er komið að sannkölluðum úrslitaleik tímabilsins. Ef blikar sigra eru þær svo gott sem búnar að tryggja sér titilinn. Ég spái að fyrstu mínútur leiksins einkennist af stressi og að mörkin komi ekki fyrr en seint í fyrri hálfleik eða jafnvel öll í seinni. Agla María og Sveindís munu eiga stjörnuleik og fara illa með varnarmenn Vals. Mist er heit eftir síðustu umferð og skorar mark Vals. Blikarnir klára þó þennan leik og eru þá komnar með níu fingur á bikarinn.

Anna Björk Kristjánsdóttir, Le Havre
Valur 2 - 1 Breiðablik
Ég vona innilega að Ísland bjóði upp á fallegan haustdag og að liðin geti sýnt þau gæði sem eru til staðar en ég, eins og örugglega flestir, er búin að bíða spennt eftir þessum leik í nokkrar vikur! Ég held að þetta verði gífurlega jafn leikur þar sem Blikar komast yfir snemma leiks eins og í flestum leikjum þeirra í sumar. Það verður mikill kraftur í Breiðabliks liðinu en ég tel að Valur nýti þá sénsa sem þær fá og vinna 2-1 sigur með mörkum í sitthvorum hálfleiknum. Ég segi að Heiðdís skori fyrir Blika eftir hornspyrnu en hjá Val verða það DML og Ásdís Karen sem skora mörkin. Valur mun svo liggja vel til baka síðustu 15 mín og ná að halda þetta út naumlega. Sandra Sig mun henda í nokkrar lykilvörslur því Valur verður einfaldlega að vinna þennan leik ef þetta á ekki að verða algjört vonbrigðar tímabil hjá þeim því enginn titill hjá svona sterku liði væri ekki nægilega gott. Breiðablik mun svo eftir þennan leik halda í vonina um að Valur misstígi sig á einhverjum tímapunkti en miðað við deildina hingað til eru ekki miklar líkur á því og Adda bikaróða missir ekki niður þannig forskot.

Jón Stefán Jónsson, þjálfari Tindastóls
Valur 2 - 1 Breiðablik
Risa risa leikur og í raun ómögulegt að spá fyrir um úrslit. Ég held samt að sökum tengsla minna við Val geti ég ekki annað en spáð þeim sigri. Ég held reyndar þess utan að reynslan í Valsliðinu vegi annsi þungt í þeirri spennu sem mun umlykja þennan leik. Þetta fer 2-1. Elín og Hlín skora fyrir Val en Sveindís fyrir Breiðablik.

Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir, Stöð 2 Sport
Valur 1 - 0 Breiðablik
Það er mikil eftirvænting eftir þessum stórleik sumarsins. Bæði lið hafa spilað vel í sumar en blikar hafa heillað mig meira sóknarlega heldur en valsarar. Leikirnir milli þessara liða hafa yfirleitt verið jafnir og spennandi nema fyrr í sumar þegar blikar unnu 4-0. Miðað við þau úrslit er auðvelt að gefa sér það að blikarnir taki þennan leik. En þràtt fyrir að blikarnir hafa verið sterkari heilt yfir í sumar er einhver lúmsk tilfinning hjá mér að Valur vinni þennan leik. Þær eru ólmar í að sýna að það er ekki þessi munur á liðunum og Selfoss er búið að sýna okkur það í sumar að það er vel hægt að vinna blikana. Valskonur eru með marga reynslubolta sem þekkja það vel að vinna titla á meðan blikarnir eru með marga unga og efnilega leikmenn. Blikarnir misstu líka nýlega Berglindi Björg og það er skarð fyrir skildi. En ég held að reynsluboltarnir vinni þennan leik. Elín Metta hefur ekki skorað mikið á móti blikum nýlega þannig það er komin tími á hana. Hún skorar eina mark leiksins og Valur vinnur 1-0.

Hulda Mýrdal, Heimavöllurinn
Valur 0 - 1 Breiðablik
Það verður veisla á Origo vellinum á laugardaginn. Þetta er A-landsliðshópurinn í heild sinni nema sumar fara í rautt og sumar í grænt. Sjö úr byrjunarliðinu á móti Svíum spila leikinn á laugardaginn. Ég fékk ábendingu um það fyrir tveimur árum að ég væri orðin eins og biluð plata að tala stöðugt um Sveindísi. Ég held því áfram. Það verða öll augu á henni á laugardaginn, nú er bara spurning hvernig hausinn og fæturnir virka eftir allt umtalið. En í þessum leik eru líka fleiri stórstjörnur og verðandi stórstjörnur.

Þetta verður áhugavert. Mun Mist Edvards fá að byrja hjá Val? Ég tel að hún geti orðið algjör x factor í þessum leik. En getur hún stoppað Alexöndru? Bæði Hlín og Agla María sem eru topp leikmenn í þessari deild fengu ekki að byrja á móti Svíum. Þær eru væntanlegar bandbrjálaðar og staðráðnar að sýna í þessum leik að þær séu bestar á landinu.

Það er alltaf verið að horfa á meðalaldur þessara liða en í Val er hann um 28 ár en 23 ár í Blikum. Staðreyndin er hinsvegar bara sú að þetta eru allt leikmenn sem eru sjúkir í að vinna titil hvort sem þær hafa unnið hann 16 sinnum eða aldrei.

Þetta verður aldrei jafn auðvelt fyrir Blika núna og í fyrri leiknum. Þetta verður hörkuleikur sem ræðst á einu marki. Það verður annaðhvort Elín eða Sveindís sem mun skora þetta eina sigurmark fyrir sitt lið. Ég er búin að breyta svona tólf sinnum á meðan ég skrifa. Var að fá ábendingu um að það verður Sveindís og það þýðir bara eitt. Ég fer rakleiðis og breyti nafninu mínu í Hulda Jane Mýrdal henni til heiðurs eftir leik. 1-0 fyrir Blika og þær verða meistarar eftir martröðina í fyrra. En að lokum. Þetta eru tvö langbestu lið landsins. Þarna eru leikmenn sem verða komnir í stór lið á næstu árum og því er skylda að mæta á laugardaginn, halla sér aftur í sætunum um svona fjörtíu gráður og njóta þess að horfa á gæði.

Bjarni Helgason, Morgunblaðið
Valur 0 - 4 Breiðablik
Það er nánast hægt að fullyrða það að úrslitin í deildinni muni ráðast í þessum leik og sama hvað þjálfarar beggja liða reyna að halda fram þá eru Breiðablik og Valur yfirburðarlið í deildinni sem eiga einfaldlega ekki að tapa stigum gegn öðrum liðum.
Mér finnst Blikarnir hafa verið í algjörum sérflokki í sumar og þær hafa verið að vinna sína leiki þvílíkt sannfærandi á meðan Valsliðið hefur verið að hiksta og sleppa með skrekkinn í mörgum leikjum sínum.
Blikaliðið hefur á að skipa ungum, sprækum og afar hröðum leikmönnum á meðan reynslumestu leikmenn Íslandsmeistara Vals eru flestar komnar á seinni hluta ferilsins og þar liggur stærsti munurinn á liðunum.
Það hentar Valsliðinu í einu orði sagt hrikalega að þurfa vinna leikinn því það þýðir að þær þurfa að færa sig framar, eftir því sem líður á leikinn, á meðan Blikarnir geta bara setið til baka og refsað þegar þannig liggur við. Liðið spilaði blússandi skyndisóknarbolta fyrir nokkrum árum og kann þann leik upp á tíu.
Ég spái 4:0-sigri Breiðabliks, líkt og í fyrri leiknum á Kópavogsvelli, og ég vona að Sveindís Jane steli fyrirsögnunum því við klikkuðum á því að gefa henni 3M fyrir frammistöðuna gegn Val síðast en við klikkum ekki á því aftur.

Eva Björk Benediktsdóttir, RÚV
Valur 1 - 2 Breiðablik
Allir sem fylgjast með Pepsi Max deild kvenna hafa beðið lengi eftir þessum leik enda í raun úrslitaleikur sumarsins og stýrir framhaldinu. Það er ekki spurning að Valskonur, ríkjandi meistarar sem spila á heimavelli á morgun, munu gefa allt sitt í leikinn og stefna á sigur. Breiðablik hefur hins vegar verið mjög sannfærandi í sínum leikjum í sumar bæði sóknarlega og varnarlega. Bæði lið eru með góða leikmenn í öllum stöðum og líkleg til árangurs svo dagsformið mun spila inn í. Góður varnarleikur á morgun verður líklega það sem skilar sigri. Ég verð að segja að mér þykir Breiðablik sigurstranglegra ef litið er til sumarsins í heild enda fengið á sig þrjú mörk í allt sumar og skorað heilan helling. Þá þarf eitthvað mikið að gerast til að Sveindís Jane skori ekki á morgun miðað við frammistöðuna í sumar. Ég hef samt ekki trú á stórsigri Blika á heimavelli Vals, ég held að þetta verði jafnari leikur en fyrri leikurinn, mikil spenna og minna um mörk. Ég spái því að Breiðablik fari með stigin þrjú heim í Kópavoginn með naumum 1-2 sigri.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner