Dortmund vill ekki Sancho - Liverpool hefur áhuga á Rodrygo ef Salah fer - Messi gæti misst af úrslitaleik
banner
   lau 03. júní 2023 20:03
Brynjar Ingi Erluson
Leipzig bikarmeistari annað árið í röð - Nkunku kvaddi með marki og stoðsendingu
Christopher Nkunku fagnar marki sínu
Christopher Nkunku fagnar marki sínu
Mynd: EPA
RB Leipzig 2 - 0 Eintracht Frankfurt
1-0 Christopher Nkunku ('71 )
2-0 Dominik Szoboszlai ('85 )

RB Leipzig er þýskur bikarmeistari annað árið í röð eftir að hafa unnið Eintracht Frankfurt 2-0 í Berlín í dag.

Leipzig átti hættulegri færi en Frankfurt í fyrri hálfleiknum. Timo Werner átti skot sem Kevin Trapp varði og þá komst Christopher Nkunku nálægt því að skora undir lok hálfleiksins en skot hans rétt framhjá markinu.

Mario Götze átti besta færi Frankfurt á 64. mínútu er hann fékk boltann í teignum en Janis Blaswich sá við honum í markinu.

Aðeins sjö mínútum síðar kom opnunarmark leiksins. Dani Olmo fékk boltann fyrir utan teiginn, lagði hann vinstra megin á Nkunku sem dansaði framhjá varnarmönnum Frankfurt áður en hann tók skotið. Boltinn fór af varnarmanni og framhjá Trapp í markinu.

Fjórtán mínútum síðar gerði ungverski sóknartengiliðurinn Dominik Szoboszlai annað markið og að þessu sinni eftir undirbúning frá Nkunku. Þetta var síðasti leikur Nkunku með Leipzig en hann mun ganga í raðir Chelsea í sumar.

Leipzig er því bikarmeistari annað árið í röð en það er Frankfurt sem situr eftir með sárt ennið.
Athugasemdir