Liverpool skoðar Davies - City fer á markaðinn - Man Utd vill Gutierrez - Bruno og Garnacho ekki öruggir - Fleiri orðaðir frá United
   þri 03. október 2023 08:40
Ívan Guðjón Baldursson
Barca mistókst að stela Altimira í sumar
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Fótboltafréttamaðurinn Fabrizio Romano greinir frá því að Barcelona reyndi að nýta sér sérstakt ákvæði til að stela miðjumanninum Sergi Altimira undan nefinu á Real Betis í sumar, en það gekk ekki upp.

Altimira er uppalinn hjá Barcelona og voru Börsungar með sérstakt endurkaupsákvæði eftir að hafa hleypt honum til Sabadell í spænsku C-deildinni á frjálsri sölu.

Altimira var lykilmaður í liði Sabadell og samdi um að fara til Getafe á frjálsri sölu þegar samningur hans við Sabadell rann út núna í sumar.

Altimira var með tveggja milljón evra riftunarákvæði í samningi sínum við Getafe, sem Real Betis ákvað að nýta sér í ágúst. Altimira var því leikmaður Getafe í svo lítið sem einn mánuð á undirbúningstímabilinu áður en hann skipti til Betis.

Mateu Alemany var yfirmaður fótboltamála hjá Barca í sumar og vildi hann fá Altimira aftur til félagsins, en sú tilraun bar ekki árangur. Leikmaðurinn var staðráðinn í að fara til Betis þar sem hann ætti meiri möguleika á að fá spiltíma heldur en hjá Barca.

Altimira er 22 ára gamall og spilar sem varnartengiliður. Honum hefur verið líkt við Sergio Busquets, fyrrum miðjumann Barcelona og spænska landsliðsins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner