Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fim 04. mars 2021 23:37
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Salah hristi höfuðið - „Klopp öskraði á hann að hlaupa til baka"
Mynd: Getty Images
Það voru margir hissa á því þegar Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, kippti Mohamed Salah af velli eftir aðeins 62 mínútur í tapinu gegn Chelsea í kvöld.

Alex Oxlade-Chamberlain kom inn á í hans stað en Salah virtist ekki sáttur með skiptinguna.

Klopp talaði um það eftir leikinn að Salah hefði spilað marga leiki að undanförnu og hann hefði litið út fyrir að vera þreyttur. „Ég hefði getað tekið Mo eða Bobby (Firmino) en ég ákvað að velja Mo," sagði Klopp og talaði hann einnig um það að hann tæki ákvarðanir sem honum þætti réttar á því augnabliki.

Fjölmiðlamaðurinn Matt Critchley tjáði sig um skiptinguna á Twitter. „Salah var ekki ánægður með að vera tekinn af velli. Hann hristi höfuðið þegar hann gekk af velli. Fyrir fimm mínútum öskraði Klopp á hann að hlaupa til baka og hjálpa varnarlega, en hann skokkaði bara með hálfum huga. Klopp sneri sér um leið að Lijnders (aðstoðarmanni sínum) og þeir ræddu um að taka hann af velli."

Salah hefur verið orðaður við Real Madrid og Barcelona, en umboðsmaður hans birti áhugaverð skilaboð á Twitter þegar skjólstæðingur hans fór af velli; einn punkt. Ekki er vitað hvað er á bak við skilaboðin, nema líklega pirringur.

Salah er langmarkahæsti leikmaður Liverpool í ensku úrvalsdeildinni með 17 mörk. Sadio Mane, sem hefur skorað sjö mörk í deildinni, og Roberto Firmino, sem hefur skorað sex mörk í deildinni, fengu báðir að vera áfram inn á vellinum og kláruðu leikinn.


Athugasemdir
banner
banner
banner