Ísland U19 1 - 2 Spánn U19
0-1 Yarek Gasiorowski ('16)
0-2 Victor Barberá ('47)
1-2 Ágúst Orri Þorsteinsson ('91)
Rautt spjald: Bjarni Guðjón Brynjólfsson, Ísland ('87)
Lestu um leikinn: Ísland U19 1 - 2 Spánn U19
Íslenska U19 ára karlalandsliðið var að keppa sinn fyrsta leik á lokakeppni EM, þar sem Strákarnir okkar mættu ógnarsterku liði Spánverja.
Spánverjar byrjuðu leikinn betur og tóku forystuna á sextándu mínútu, þegar Yarek Gasiorowski skoraði eftir hornspyrnu.
Spánverjar voru með öll völd á vellinum en Íslendingar áttu fínar rispur í gegnum Stjörnumanninn Eggert Aron Guðmundsson, en besta tilraun hans hafnaði rétt yfir markinu.
Victor Barberá tvöfaldaði forystu Spánverja í upphafi síðari hálfleiks eftir vandræðagang í vörn íslenska landsliðsins þar sem Arnar Daníel Aðalsteinsson gerði mistök eftir að hafa verið nýkominn inn af bekknum.
Þegar tók að líða á síðari hálfleikinn komst Ísland meira inn í leikinn en tókst ekki að skapa mikla hættu. Bjarni Guðjón Brynjólfsson fékk sitt seinna gula spjald á 87. mínútu og tókst tíu Íslendingum að minnka muninn með marki í uppbótartíma. Ágúst Orri Þorsteinsson fylgdi þar tilraun Róberts Frosta Þorkelssonar eftir með marki.
Nær komust Íslendingar ekki og lokatölur 1-2 sigur Spánverja, sem hefði hæglega getað verið stærri. Í liði Spánverja er mikið af öflugum leikmönnum og var fyrirliðinn Ilias Akhomach besti leikmaður vallarins. Hinn gríðarlega eftirsótti Ivan Fresneda var einnig í byrjunarliði Spánverja.
Ísland á næst leik við Noreg í keppninni, en Norðmenn lögðu Grikki að velli í ótrúlegri viðureign fyrr í dag.
Noregur komst í 5-0 forystu í fyrri hálfleik en hugrakkir Grikkir náðu að skora fjögur mörk og minnka muninn niður í 5-4 í síðari hálfleik, en það urðu lokatölurnar. Grikkir skoruðu þrjú síðustu mörk leiksins á 15 mínútna lokakafla.