Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   sun 04. september 2022 08:20
Ívan Guðjón Baldursson
Úlfarnir geta fengið arftaka Dendoncker á frjálsri sölu
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images

Úlfarnir eru í leit að varnarleikmanni eftir söluna á Leander Dendoncker til Aston Villa á lokadegi félagsskiptaglugga sumarsins.


Bruno Lage, stjóri Wolves, vildi ekki missa Dendoncker en félagið neyddist til að selja hann þegar tilboðið barst. Hann viðurkenndi í viðtali í gær að félagið sé í leit að arftaka og búið að vera í samningsviðræðum við Jason Denayer sem er falur á frjálsri sölu.

„Ég þekki Denayer mjög vel, við sjáum til hvað gerist á næstu dögum. Við erum ánægðir með leikmannahópinn en það væri betra að bæta einum reynslumiklum varnarleikmanni við," sagði Lage.

Þessir tveir leikmenn líkjast þokkalega mikið þó Denayer sé varnarmaður að upplagi og Dendoncker miðjumaður. Þeir geta báðir spilað í báðum stöðunum, eru fæddir sama ár og eiga um 30 landsleiki að baki fyrir Belgíu hvor. 

Fótboltaáhugamenn gætu kannast við Denayer frá dvöl hans hjá Manchester City. Hann var hjá félaginu í fimm ár án þess að spila nokkurn tímann keppnisleik og var lánaður til Celtic, Sunderland og Galatasaray áður en hann var seldur til Lyon fyrir 5 milljónir punda.

Denayer spilaði 139 leiki á fjórum árum hjá Lyon og er núna orðinn falur á frjálsri sölu. 

Félagsskiptaglugginn er aðeins lokaður fyrir leikmannaskipti á milli knattspyrnufélaga. Samningslausir leikmenn hafa mun lengri frest til að finna sér nýtt félag.

Wolves krækti sér í Boubacar Traore á lánssamningi frá Metz til að fylla í skarðið sem Dendoncker skilur eftir en Lage vill bæta öðrum leikmanni sem spilar svipaða stöðu við hópinn.


Athugasemdir
banner
banner
banner