Arsenal leggur fram tilboð - Schick til Englands - Emi á útleið og fer Inzaghi til Sádi?
   mið 04. október 2023 17:00
Elvar Geir Magnússon
Beckham ætlaði að ráðast á Sir Alex eftir að hann sparkaði skó í andlit hans
Það þurfti að halda aftur af David Beckham þegar hann ætlaði að ráðast á Sir Alex Ferguson í klefa Manchester United árið 2003. Beckham hefur opinberað þetta en hann trompaðist þegar Sir Alex sparkaði í skó sem hafnaði í andliti hans.

Atvikið gerðist eftir 2-0 tapleik gegn Arsenal í FA-bikarnum en Sir Alex lét Beckham heyra það fyrir að hafa ekki elt uppi andstæðing sinn í aðdragandanum að marki.

Beckham svaraði honum og blótaði, og varð síðan fyrir meiðslum í andliti þegar Sir Alex sparkaði í skóinn.

„Það sauð á stjóranum þegar við gengum inn í búningsklefann. Það sást í andliti hans. Þegar maður sá hann svona þá vildi maður ekki vera nálægt honum," segir Beckham.

Hann segist samstundis hafa séð eftir því að hafa svarað Sir Alex þegar hann lét hann heyra það.

„Þegar ég fékk skóinn í mig þá ætlaði ég í hann, einhver þurfti að halda aftur af mér," segir Beckham. Ole Gunnar Solskjær hefur sagt frá því að hann átti skóinn sem lenti í Beckham.
Athugasemdir
banner