Trent efstur á blaði Real - Newcastle vill Mbeumo - Arsenal hefur áhuga á Kudus
   mán 04. nóvember 2024 17:54
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Útskýrir hvers vegna lykilmenn eru farnir frá Vestra - „Auðvitað er þetta skellur"
Andri Rúnar.
Andri Rúnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður Aron.
Eiður Aron.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Jónas.
Gunnar Jónas.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
William Eskelinen.
William Eskelinen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vestri endaði í 10. sæti Bestu deildarinnar.
Vestri endaði í 10. sæti Bestu deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vestri tilkynnti á föstudag að sjö leikmenn yrðu ekki áfram hjá félaginu, eða öllu heldur að sex leikmenn verði ekki áfram og einn fengi ekki nýjan samning að svo stöddu hið minnsta.

Leikmennirnir sem um ræðir eru þeir Andri Rúnar Bjarnason, markahæsti leikmaður liðsins, William Eskelinen, Jeppe Gertsen, Aurelien Norest, Benjamin Schubert og Inaki Rodriguez. Eiður Aron Sigurbjörnsson hafði rift samningi sínum við félagið og var tekið fram að félagið myndi ekki bjóða honum nýjan samning á þessum tímapunkti.

Fótbolti.net ræddi við Samúel Samúelsson, formann meistaraflokksráðs karla hjá Vestra, um tíðindi laugardagsins.

„Auðvitað er þetta skellur. Við vonuðumst til þess að Andri sæi sér fært að vera áfram hjá okkur, en út af fjölskylduástæðum hjá honum þá eiginlega gekk það bara ekki upp. Við ræddum þetta vel, en niðurstaðan var sú að hann ætti mjög erfitt með að vera áfram fyrir vestan og gæti þ.a.l. ekki spilað áfram með Vestra."

„Það er svolítið svipað upp á teningnum með Eið Aron. Hann segir upp samningnum við okkur, gefur færi á að vera áfram, en hann er líka að díla við fjölskylduaðstæður. Hann á tvö lítil börn og þetta var erfitt sumar fyrir þau. Við töldum ráðlegast að leyfa honum að finna út úr því hvort hann hreinlega gæti verið áfram, vildum ekki þrýsta honum í viðræður á þessum tímapunkti. Þess vegna segir í tilkynningunni að honum yrði ekki boðinn samningur á þessum tímapunkti."

„Varðandi hina þá verður maður stundum að vega og meta hvað sé best fyrir félagið. William Eskelinen er frábær markmaður og frábær drengur, en getum við sótt sambærilegan markmann á minni pening? Jeppe Gertsen var ekki í byrjunarliðinu hjá Vestra og þ.a.l. getum við kannski fengið mann í hans stað sem nýtist okkur betur. Aurelien Norest, Frenchy, hefur þjónað félaginu vel og lengi. Hann hefur verið óheppinn með erfið meiðsli og hefur lítið spilað síðustu tvö ár, niðurstaðan var að semja ekki áfram við hann. Við fengum Inaki í glugganum til þess að stækka hópinn, flottur strákur sem stóð sig fínt, en ef við ætlum að styrkja liðið þá getum við ekki haldið öllum sem voru fyrir. Sömu sögu er að segja af Benjamin. Það þurfa einhverjir að fara svo aðrir geti komið."

„Það verður gríðarlega erfitt að fylla skörð Andra og Eiðs, það er engin spurning og við gerum okkur alveg grein fyrir því. En ef það er einhver þjálfari sem ég treysti í að finna menn í staðinn, þá er það Davíð Smári,"
segir Sammi.

Vilja halda Vigurbolanum
Gunnar Jónas Hauksson steig inn á sjónarsviðið hjá mörgum áhorfendum íslenska boltans í sumar. Hann kom öflugur inn í lið Vestra. Hann er einn af þeim sem eru að verða samningslausir. Hvernig er staðan á honum?

„Menn eru alltaf að tala um að Gunnar sé KR-ingur, það er langt því frá. Hann er fæddur og uppalinn á Ísafirði, mamma hans og pabbi eru bæði Ísfirðingar í húð og hár. Þó að hann hafi æft með KR í 3-4 ár, þá er þetta Vestramaður."

„Hann er að skoða sín mál. Hann hefur verið búsettur í Reykjavík, er þar að reka hárgreiðslustofu og konan er í Reykjavík. Við viljum klárlega halda honum en tíminn verður svolítið að leiða það í ljós hvernig það fer. Við bindum vonir við að hann verði áfram hjá okkur."


Margir sem hafa ekki þorað að taka skrefið
Kafli úr næsta hluta viðtalsins fylgir svo með hér að neðan.

„Menn hafa verið að hafa orð á því að við séum að missa Íslendinga núna, það er svo sem rétt, en við erum líka að horfa í það að liðið sem fór upp úr Lengjudeildinni á gríðarlegri liðsheild númer eitt, tvö og þrjú, var eingöngu með 3-4 Íslendinga í mjög stóru hlutverki. Ég vil meina að það sé hægt að búa til gott lið burtséð frá því frá hvaða landi menn eru. Að sjálfsögðu kjósum við að hafa sem flesta heimamenn og Íslendinga, en við eigum lengra í land með að fá Íslendinga vestur á firði. Þeir sem prófa það, þeim líkar það yfirleitt mjög vel, en svo eru margir sem þora ekki að taka skrefið," segir Sammi.

Í viðtalinu sem verður birt í heild sinni á morgun ræðir Sammi um fyrsta tímabil Vestra í efstu deild og aðstöðumálin á Ísafirði.
Athugasemdir
banner
banner
banner