mið 05. janúar 2022 13:09
Elvar Geir Magnússon
Covid hópsmit hjá Senegal nokkrum dögum fyrir Afríkukeppnina
Macky Sall, forseti Senegal, heilsar Sadio Mane áður en landsliðið átti að halda til Kamerún.
Macky Sall, forseti Senegal, heilsar Sadio Mane áður en landsliðið átti að halda til Kamerún.
Mynd: Présidence Sénégal
Undirbúningur senegalska landsliðsins fyrir Afríkukeppnina er í uppnámi eftir að níu meðlimir hópsins, þar af þrír leikmenn, greindust með Covid veiruna.

Senegal er talið sigurstranglegast til að lyfta bikarnum í byrjun febrúar en liðið átti að halda til Kamerún, þar sem keppnin fer fram, í gær. Ferðalaginu hefur verið frestað vegna stöðunnar.

Leikmennirnir þrír sem greindust með Covid eru Nampalys Mendy hjá Leicester, Pape Sarr sem er hjá Metz á láni frá Tottenham og Mame Thiam sem leikur fyrir Kayserispor í Tyrklandi.

Senegal er í B-riðli Afríkukeppninnar og á að leika fyrsta leik sinn á mánudag, gegn Simbabve. Óvíst er hvenær liðið mun ferðast til Kamerún.

Þetta setur einnig strik í reikninginn varðandi Ismaila Sarr sem læknateymi Senegal ætlar að skoða en fótboltasambandið hefur verið í deilum við Watford. Enska félagið segir að leikmaðurinn sé ekki leikfær en hann hefur verið frá vegna némeiðsla.

Reglur FIFA eru á þá leið að leikmaður sem er kallaður í landsliðsverkefni verður að fá að fara, jafnvel þó hann sé meiddur, svo að læknateymi landsliðsins geti skoðað hann.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner