Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   mán 05. febrúar 2024 12:53
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðar Örn æfir með FH - „Viljum fá einn sóknarmann í viðbót"
Viðar Örn Kjartansson.
Viðar Örn Kjartansson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Petur Knudsen faðmar Frey Alexandersson þáverandi þjálfara sinn hjá Lyngby.
Petur Knudsen faðmar Frey Alexandersson þáverandi þjálfara sinn hjá Lyngby.
Mynd: Getty Images
Úlfur Ágúst.
Úlfur Ágúst.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór var keyptur frá Víkingi í vetur.
Arnór var keyptur frá Víkingi í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viðar Örn Kjartansson æfði með FH í síðustu viku. Viðar er án félags eftir að hafa fengið sig lausan frá búlgarska félaginu CSKA 1948 Sofia fyrir áramót.

Fótbolti.net ræddi við Davíð Þór Viðarsson sem er yfirmaður fótboltamála hjá FH og var hann spurður út í Viðar.

„Við erum ekki í neinum viðræðum við hann. Umboðsmaðurinn hans hafi samband og spurði hvort Viðar gæti kíkt á æfingar hjá okkur. Það var ekkert nema sjálfsagt. Hann er búinn að æfa á eina æfingu hjá okkur og er meira en velkominn að æfa áfram með okkur. Þetta er ekkert komið lengra en það. Hann vildi reyna koma sér af stað, hefur ekkert spilað í dálítinn tíma," sagði Davíð.

FH er í leit að sóknarmanni þar sem Úlfur Ágúst Björnsson verður ekki með FH allt tímabilið og Kjartan Henry Finnbogason lagði skóna á hilluna. FH myndi ekkert slá hendinni á móti því ef Viðar stæði til boða?

„Það væri eitthvað sem við myndum skoða, en við erum ekkert farnir að huga að því að hann gæti verið kostur fyrir okkur. Það kemur í ljós síðar meir."

Nafn sem er á blaði hjá okkur
Færeyski landsliðsmaðurinn Petur Knudsen var orðaður við FH í fyrra. Sóknarmaðurinn er samningslaus sem stendur og hefur verið orðaður við íslensk félagslið.

„Við höfum ekkert heyrt í honum. Ég sá að hann yrði ekki áfram í Bandaríkjunum. Við höfðum áhuga á honum í fyrra og vorum nálægt því að ná í hann. Þá þróaðist þetta þannig að forsendur hjá Lyngby breyttust, Petur fór að spila og standa sig vel. Við höfum ekkert gert varðandi hann núna, en hann er að sjálfsögðu nafn sem er á blaði hjá okkur."

Úlfur nær um helmingi mótsins
Hvernig verður árið hans Úlfs Ágústs?

Úlfur er í háskólanámi í Bandaríkjunum og missir líklega af fyrstu þremur leikjum tímabilsins. Hann fer svo aftur út í ágúst. Hann nær því einungis um helmingi mótsins. „Hann kemur í lok apríl og fer aftur út í byrjun ágúst."

„Hann er í fínu prógrami úti, en vandamálið við bandaríska háskólaboltann er að mótið er spilað fyrri áramót. Eftir áramót eru svo æfingar og æfingaleikir. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af því að hann verði ekki í formi, en hann verður kannski ekki í brjáluðu leikformi. Ég held að hann komi ekki heim með hærri fituprósentu en hann var með þegar hann fór frá okkur."


„Gaman að fólk sé að heyra sögur og tjá sig um þær"
Hvernig horfir framherjastaðan og sóknarastöðurnar við þér núna?

„Við viljum auka breiddina þar, viljum fá einn sóknarmann í viðbót. Okkur hefur gengið mjög vel í þessum fyrstu leikjum [unnu t.a.m. Þungavigtarbikarinn] og Arnór (Borg Guðjohnsen) hefur verið mjög flottur uppi á topp hjá okkur. Dagur Traustason, ungur strákur, hefur komið mjög vel inn af bekknum í þessum leikjum. Við viljum bæta við okkur, en við viljum vanda okkur í því. Það er ekkert jafn þreytt og að taka einhvern leikmann í einhverju stresskasti og svo stendur hann ekki undir væntingum. Maður er svo sem aldrei með 100% vissu um hvað maður er að fá, en ef maður er að taka inn leikmenn erlendis frá þá vill maður vera eins pottþéttur og hægt er að við séum að fá það sem við erum að leita að."

Heyrst hefur að FH vilji taka inn tvo erlenda sóknarmenn. Er eitthvað til í því?

„Ég held að það sé bara eitthvað sem einhver bjó til. Við værum til í að fá einn senter af því að Arnór er kannski að upplagi 'nía'. Hvort sem það væri útlendingur eða Íslendingur, það færi bara eftir því hvað það er sem okkur líst best á. Auðvitað viljum við helst vera með íslenska leikmenn, leikmenn sem þekkja deildina og hvernig fótboltinn er, en markaðurinn er kannski ekkert rosalega stór varðandi það hér á Íslandi. Að sjálfsögðu kemur til greina að taka inn útlending, en það hefur aldrei verið yfirlýst markmið að ná í tvo erlenda sóknarmann. Ég heyrði þessa sögu, gaman að fólk sé að heyra sögur og tjá sig um þær. Það kemur bara í ljós hvað verður, en við yrðum mjög ánægðir ef við fengjum einn sóknarmann í viðbót," sagði Davíð.
Athugasemdir
banner
banner