Liverpool undirbýr tilboð í Kerkez - West Ham reynir að fá Gomes - Man Utd skoðar markverði
   mið 05. mars 2025 22:03
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeildin: Elliott stal sigrinum í París - Bayern skoraði þrjú
Tíu leikmenn Barcelona höfðu betur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Þremur síðustu leikjum kvöldsins í Meistaradeild Evrópu er lokið þar sem Liverpool heimsótti Paris Saint-Germain og stal 0-1 sigri eftir að hafa legið í vörn allan leikinn.

Heimamenn í liði PSG gjörsamlega yfirspiluðu Liverpool og sköpuðu sér urmul góðra færa, án þess að takast að koma boltanum í netið.

Alisson Becker átti ótrúlegan stórleik á milli stanganna hjá Liverpool og var varnarmaðurinn Ibrahima Konaté heppinn að vera ekki rekinn af velli þegar hann virtist brjóta af sér sem aftasti varnarmaður.

Khvicha Kvaratskhelia skoraði laglegt mark fyrir PSG en það var ekki dæmt gilt vegna afar naumrar rangstöðu sem hafði engin raunveruleg áhrif á sóknina.

Liverpool lá í vörn og skapaði aldrei hættu á hinum enda vallarins, ekki fyrr en á lokamínútum leiksins. Harvey Elliott kom þá inn af bekknum og skoraði með sinni fyrstu snertingu eftir góða sókn gestanna. Darwin Núnez gerði mjög vel að ná stjórn á boltanum og finna Elliott sem kom á harðaspretti og brást ekki bogalistin. Gianluigi Donnarumma markvörður PSG var með aðra höndina í boltanum og hefði líklegast átt að gera betur.

Lokatölur urðu því 0-1 þrátt fyrir gífurlega yfirburði PSG. Lærisveinar Luis Enrique þurfa að mæta grimmir í seinni leikinn á Anfield.

FC Bayern tók þá á móti Bayer Leverkusen í áhugaverðum slag toppliða þýsku deildarinnar. Heimamenn í Bayern stóðu uppi sem sigurvegarar eftir furðulegan leik.

Harry Kane skoraði fyrsta markið snemma leiks með frábærum skalla eftir fyrirgjöf frá Michael Olise og var staðan 1-0 í leikhlé. Jeremie Frimpong fékk besta færi Leverkusen til að jafna metin en Manuel Neuer gerði vel að verja boltann í hornspyrnu einn á móti einum.

Heimamenn í liði Bayern voru sterkari en tókst ekki að bæta marki við fyrr en í upphafi síðari hálfleiks, eftir hryllileg mistök Matej Kovar markmanns Leverkusen. Kovar missti auðveldan bolta úr greipum sér og var Jamal Musiala fyrstur að átta sig. Musiala potaði boltanum í netið af stuttu færi til að tvöfalda forystuna.

Nordi Mukiele fékk svo að líta seinna gula spjaldið sitt fyrir klaufalegt brot á 62. mínútu og áttu 10 leikmenn Leverkusen enga möguleika.

Kane innsiglaði 3-0 sigur með marki úr vítaspyrnu á 75. mínútu og er Bayern í frábærri stöðu fyrir seinni leikinn.

Barcelona sigraði að lokum útileik gegn Benfica þrátt fyrir að vera leikmanni færri nánast allan tímann.

Heimamenn í Benfica voru að sleppa í gegn þegar Pau Cubarsí braut af sér sem aftasti varnarmaður og fékk beint rautt spjald að launum.

Benfica mistókst að skora úr aukaspyrnunni og varð leikurinn gegn tíu gestum frá Barcelona furðu jafn.

Benfica fékk betri færi en Wojciech Szczesny átti stórleik á milli stanganna. Á 61. mínútu skoraði Raphinha svo laglegt mark þvert gegn gangi leiksins. Hann gerði vel að vinna boltann hátt uppi á vellinum og kláraði með frábæru skoti.

Börsungar færðu sig aftar á völlinn eftir þetta mark og sóttu heimamenn stíft. Þeir fundu þó ekki miklar glufur á varnarleik Barca og tókst ekki að skora.

Lokatölur urðu því 0-1 fyrir Barcelona sem spilaði leikinn einum leikmanni færri.

Paris Saint Germain 0 - 1 Liverpool
0-1 Harvey Elliott ('87 )

Bayern 3 - 0 Bayer
1-0 Harry Kane ('9 )
2-0 Jamal Musiala ('54 )
3-0 Harry Kane ('75 , víti)
Rautt spjald: Nordi Mukiele, Bayer ('62)

Benfica 0 - 1 Barcelona
0-1 Raphinha ('61 )
Rautt spjald: Pau Cubarsi, Barcelona ('22)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner