Liverpool undirbýr tilboð í Kerkez - West Ham reynir að fá Gomes - Man Utd skoðar markverði
banner
   mið 05. mars 2025 22:50
Ívan Guðjón Baldursson
Mourinho opinn fyrir að þjálfa Celtic eða Rangers
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Portúgalski þjálfarinn José Mourinho útilokar ekki að þjálfa Celtic eða Rangers í framtíðinni, en hann er aðalþjálfari hjá Fenerbahce í dag. Mourinho þekkir til á Skotlandi eftir að hafa fengið þjálfaragráðurnar sínar þar.

Fenerbahce spilar við Rangers í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar og var Mourinho spurður hvort hann myndi nokkurn tímann þjálfa lið í skoska boltanum.

„Eins og staðan er í dag þá hef ég ekki áhuga á því en af hverju ekki í framtíðinni? Fólk getur sagt að það eru bara tvö lið í skosku deildinni en þetta er mikil ástríðudeild og fyrir mér er ástríða allt í fótbolta," svaraði Mourinho.

„Að mínu mati er algjörlega tilgangslaust að keppa á tómum leikvöngum eða í deildum þar sem er ekki nógu mikil ástríða og eldmóður í kringum fótboltann. Þetta yrði ekki vandamál hjá Celtic eða Rangers því það eru stór félög með mikið af stuðningsfólki, tilfinningum, ábyrgð og væntingum.

„En eins og staðan er í dag þá er ég mjög hamingjusamur í mínu starfi."


Rangers hefur ekki gengið sérlega vel að undanförnu og rak félagið Philippe Clement úr þjálfarastólnum í lok febrúar svo nú er Barry Ferguson við stjórn.

Clement gagnrýndi varnarsinnaðan leikstíl Mourinho í viðtali í vetur áður en hann var rekinn og nýtti Mourinho tækifærið til að skjóta á kollega sinn.

„Þetta verður erfiðari leikur eftir þjálfaraskiptin, gamli þjálfarinn þeirra var alltof upptekinn af hugmyndafræði og ekki nægilega upptekinn af því sem er að gerast inni á vellinum. Þú vinnur fótboltaleiki ekki með hugmyndafræði heldur með því sem þú gerir á vellinum."
Athugasemdir
banner
banner
banner